146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:43]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Já, ég hef lesið mig í gegnum umsagnir um fyrri frumvörp. Ég gerði það raunar í fyrri störfum mínum. Þetta er eitt af því sem mér finnst að ég hafi lesið of mikið af, umsagnir um áfengisfrumvörp. En það er víst þannig að trúi fólk einhverju staðfastlega og telji það gríðarlega mikilvægt kemur það reglulega fram með frumvörp í þá veru. Þar er ég alveg sammála mati hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur að þetta skiptist í tvo hluta. Það er erfitt, ef það er þá gerlegt, að finna umsögn frá fagfólki sem er jákvæð. Ég man ekki til þess að hafa rekist á slíka umsögn. Eins og ég kom að í ræðu minni finnst mér í málum sem þessum býsna ábyrgðarlaust að hlusta ekki á fagfólk.

Hverjir eru hagsmunirnir? Ég kom inn á þá. Það er ekki eins og einhver fari að bjóða vöru til sölu án þess að græða neitt á því. Það væri þá í fyrsta skipti í sögu kapítalismans, ef verslunareigendur ætluðu sér ekki að græða á sölu vöru. Kannski hafa flutningsmenn þessa frumvarps fundið einhvers konar hliðarveröld eða hliðarvídd við kapítalismann, en ég ætla ekki að treysta á það.

Hvað varðar kostnaðargreininguna finnst mér, og ég og ætla bara að vera algerlega einlægur á þessum síðustu rúmlega 20 sekúndum sem ég hef hérna … (Gripið fram í.) [Hlátur í þingsal.] — Ekki einu sinni á barnum. Ég ætla að fara á trúnó með ykkur. Mér finnst eins og flutningsmenn þessa frumvarps séu að reyna að snúa sönnunarbyrðinni við. Hér er hent inn frumvarpi, þetta er svona og svona og tínd til öll rök, frá umhverfisrökum yfir í ég veit ekki hvað, og sagt svo: „Sannið þið að þetta muni hafa slæmar afleiðingar. Það er ykkar að sanna það.“ Þetta þykja mér í raun og veru mjög ámælisverð vinnubrögð. (Forseti hringir.) Það er þeirra sem vilja breytingarnar að rökstyðja að breytingarnar verði ekki til ills.