146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:45]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Í dag höfum við nokkuð tekist á um það hversu mikið mark við eigum að taka á fagfólki. Ein er sú stétt sem við erum öll nokkuð sammála um að taka mark á og það eru veðurfræðingar. Nú háttar svo til að gefin hefur verið út stormviðvörun og ekki telst verða ferðaveður milli landshluta á morgun. Ég vil spyrja forseta hvort hún hafi tekið ákvörðun um þingfund morgundagsins þar sem eru boðaðar m.a. sérstakar umræður um æskulýðsmál og væntanlega aðrir áhugaverðir dagskrárliðir sem væri gott að hafa fulla mönnun í, sem ég óttast að yrði ekki ef þeir þingmenn sem búa á Suðurnesjum eða uppi á Skaga myndu veigra sér við að keyra til Reykjavíkur, hvað þá ef þeir sem lengra koma að færu heim í kvöld til að forðast að verða innlyksa í borginni yfir helgina. Mér þætti ágætt að heyra hvort forseti hefur skoðað þessi mál.