146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:50]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég lýsi yfir þakklæti yfir því að enn viðrar vel til umræðu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak. Hér stöndum við enn og aftur og ræðum frumvarp þingmanna Sjálfstæðisflokksins og fylgihnatta þeirra um breytingar á lögum um verslun með áfengi og tóbak.

Af því að þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins fór mikinn í þingsal í gær og hneykslaðist á málefnaþurrð minni hluta þingsins sér hann vonandi það sem við öll upplifum, sem er að við stöndum hér og verðum vitni að málefnaþurrð þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Það vill svo ótrúlega til að í hvert sinn sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins af yngri kynslóðinni er látinn ganga í gegnum þá eldskírn að bera upp frumvarp um sölu á víni í búðir er reynslan sú að verið er að breiða yfir eitthvert hneykslismál flokksins, eins og þegar fyrrverandi hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson mælti fyrir frumvarpi sínu um vín í búðir þann 16. október 2008 þegar allt efnahagslíf landsins hafði hrunið í boði flokksins, og kannski einhverra fleiri, nokkrum dögum áður. Svo var það þegar nánast samhljóða mál var ítrekað dregið upp á síðasta kjörtímabili en það kjörtímabil var uppfullt af hneykslismálum Sjálfstæðisflokksins. Nú er ekki annað hægt en að velta því fyrir sér að til þess að breiða yfir fullkomna málefnaþurrð nýrrar ríkisstjórnar, sem lofaði öllu fögru fyrir kosningar og á fyrstu dögum sínum um aðgerðir strax til uppbyggingar heilbrigðiskerfisins, menntakerfisins og samgöngukerfisins, séum við í staðinn að ræða þetta umdeilda mál, aukið aðgengi að áfengi og að sala þess verði gefin frjáls í einkasölu.

Ritari Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, talar um að þetta sé ekki forgangsmál Sjálfstæðisflokksins heldur þingmannamál. En staðreyndin er sú að þetta er sannarlega forgangsmál þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Því miður fyrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins er sannarlega ekki samstaða um það í samfélaginu, um þetta eilífa gælumál Sjálfstæðisflokksins. Um það vitna nýjar skoðanakannanir sem sýna að 60% landsmanna eru því andvíg að auka aðgengi að áfengi. Því er hægt að velta fyrir sér hvort það sé við hæfi að ríkisstjórnarflokkur með svo nauman þingmeirihluta beri upp svo umdeilt mál. Líklega er það gert til að eyða tímanum í að ræða það frekar en að ræða einhver mál frá ríkisstjórninni.

En snúum okkur að innihaldi frumvarpsins sem snýst um aukið aðgengi að áfengi og þá staðreynd að hér er verið að láta undan þrýstingi frá verslunareigendum á kostnað lýðheilsusjónarmiða undir þeim formerkjum að frumvarpið snúist um valfrelsi og frelsi einstaklingsins til að velja. Þetta frumvarp snýst ekki um valfrelsi. Þetta frumvarp snýst um hagsmuni verslunarinnar en ekki hagsmuni ungmenna og almennings alls eða um lýðheilsusjónarmið. Til marks um það er að forstjóri Haga hf. segir í ávarpi sínu í ársskýrslu fyrirtækisins í lok síðasta árs, með leyfi forseta:

„Unnið var markvisst að undirbúningi innflutnings og sölu áfengis. Frumvarp um sölu á áfengi í dagvöruverslun. […] Frumvarp um sölu á áfengi í dagvöruverslunum hefur enn ekki orðið að lögum, en það er trú stjórnenda félagsins að nú sé ekki spurning um hvort, heldur hvenær slíkt frumvarp verður samþykkt á Alþingi.“

Til að átta sig á umfangi Haga í smávöruverslun á Íslandi þá eru Hagar hf. með 60% af heildarveltu matvöruverslana á Íslandi í árslok 2015. Til viðbótar við þetta má benda á að þegar sambærilegt frumvarp var lagt fram af hálfu hv. þingmanns Sjálfstæðisflokksins, Vilhjálms Árnasonar, voru langflestar umsagnanna við það frumvarp neikvæðar en einu jákvæðu umsagnirnar um frumvarpið komu frá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg og Viðskiptaráði Íslands. 4 umsagnir af 49 voru jákvæðar, öll hagsmunasamtök um lýðheilsu og velferð barna og fjölskyldna lögðust gegn frumvarpinu. Einu samtökin sem voru og eru áfram um að gefa sölu á áfengi frjálsa eru samtök verslunarinnar. Það er nú allt frelsið og frelsi einstaklingsins til að velja.

Köllum þetta frumvarp bara það sem það er: Þetta er frumvarp fyrir hagsmuni verslunareigenda á kostnað allra almannahagsmuna. Hér er um að ræða beina hagsmunagæslu fyrir verslunareigendur í landinu en ekki hagsmunagæslu fyrir almenning í landinu, sem ég verð eiginlega að játa í einfeldni minni að ég hélt að við þingmenn værum kjörnir til.

Frumvarpið um breytingu á lögum um verslun með áfengi er þá samið í þeim tilgangi að þjóna hagsmunum verslunarinnar og á forsendum þeirra og skýrir þann þunga og það offors Sjálfstæðisflokksins á flutningi þess í þinginu. Sjónarmiði um valfrelsi er kastað fyrir róða því að með því að afhenda stórverslunum á matvörumarkaði þetta er töluverð hætta á að flutningsmenn og stuðningsmenn frumvarpsins séu að takmarka úrval áfengis og þar með takmarka frelsi einstaklingsins til að velja sér fleiri tegundir áfengis.

Flutningsmaður frumvarpsins, hv. þm. Teitur Björn Einarsson, talar um áfengi eins og hverja aðra neysluvöru þegar allar rannsóknir sýna svo sannarlega að áfengi er ekki eins og hver önnur neysluvara. Öllum er ljóst að aðgengi Íslendinga að áfengi hefur verið ansi gott og greitt hingað til, þ.e. allir Íslendingar 20 ára og eldri hafa nokkuð greiðan aðgang að áfengi. Ég sé því ekki alveg hvernig núverandi áfengisstefna og sölufyrirkomulag hefur hamlað aðgangi einstaklinga að áfengiskaupum. Nema þá með ábyrgri stjórnun á sölufyrirkomulaginu. Ég er satt að segja ansi hugsi og tel það vera í hæsta máta undarlegt hversu mikla áherslu þingmenn Sjálfstæðisflokksins og lagsmenn þeirra hafa lagt á framgang þessa máls í þinginu.

Síðan hafa flutningsmenn og stuðningsmenn frumvarpsins talað mikið um að Ísland sé alveg ótrúlega gamaldags og forpokað að selja ekki áfengi í matvöruverslunum, jafnvel þótt öllum sem hafa rannsakað það eða kynnt sér málið sé ljóst að áfengi er ekki selt í frjálsri einkasölu alls staðar annars staðar á Norðurlöndunum nema í Danmörku og ekki í mörgum ríkjum Bandaríkjanna eða öllum fylkjum í Kanada. Þau rök standast einfaldlega ekki. Það er einu sinni svo að það er greinilegt að það er frekar hópur framsýnna þjóðfélaga sem takmarkar aðgengi að áfengi en samfélög sem kannski einhverjir teldu forneskjuleg og gamaldags.

En að lýðheilsusjónarmiðunum sem bæði ritari Sjálfstæðisflokksins og framsögumaður frumvarpsins kjósa því miður að hunsa. Þau eru svo sannarlega fyrir hendi og mæla þau sjónarmið langmest gegn innihaldi þessa frumvarps, eins og fram hefur komið í máli þingmanna í dag. Í umsögnum um nánast sambærilegt frumvarp sem lagt var fram á síðasta kjörtímabili lögðust bæði landlæknir og allar uppeldis-, fræðslu-, umönnunar- og heilbrigðisstéttir gegn málinu. Öll helstu félagasamtök á sviði velferðarmála, uppeldismála, mæltu eindregið gegn breytingu á núverandi lögum og gegn því að sala áfengis yrði gefin frjáls. Í umsögnum sínum um frumvarpið bentu stofnanir og samtök á ótal rannsóknir og niðurstöður þeirra máli sínu til stuðnings og vega þar þyngst að mínu mati niðurstöður og leiðbeiningar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar sem eru skýrar: Aukið aðgengi að áfengi eykur líkur stórlega á aukinni neyslu áfengis. Í því samhengi bendir landlæknisembættið m.a. á aðgerðaáætlun Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar fyrir árin 2013–2020 gegn lífstílstengdum sjúkdómum þar sem kemur fram að einn af stærstu þáttum í dauðsföllum vegna lífstílstengdra sjúkdóma sé neysla áfengis. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin varar við því að auka aðgengi að áfengi og mælir með reynslu allra norrænna ríkja, nema Danmerkur, sem er að ríkið beri ábyrgð á sölu áfengis og veiti þar með traust og tryggt aðhald á sölu áfengis, tryggi ábyrga stjórn á sölunni og aðgengi að vörunni.

Mig langar líka að benda á að Noregur og Svíþjóð, þar sem aðgengi og sala á áfengi er takmörkuð við ríkisreknar verslanir, eru þau lönd sem við viljum helst bera okkur saman við þegar kemur að hagsæld, velferð og góðum árangri ef við skoðum það út frá hagfræðinni og eru eins þau lönd sem eru fremst í heimi varðandi almenn heilsufarssjónarmið.

Við Íslendingar höfum líka staðið okkur frábærlega undanfarin ár í lýðheilsumálum og sér í lagi þegar kemur að því að minnka unglingadrykkju. Þar hefur orðið alger viðsnúningur hér á landi svo að eftir hefur verið tekið á erlendri grundu. Um það vitna m.a. markvissar rannsóknir Rannsókna & greiningar sem sérhæfa sig í rannsóknum á högum og líðan ungs fólks, bæði á Íslandi og erlendis. Í vinnu þess rannsóknarfyrirtækis hefur átt sér stað kortlagning á forvarnavinnu og forvarnaaðferðum sem komið var á árið 1997 af hópi félagsvísindafólks, stefnumótunaraðila og fólks sem starfar með börnum og ungmennum til að endurhugsa stefnu og starf á sviði forvarna sem gæti snúið þróuninni á aukinni vímuefnaneyslu ungmenna á tíunda áratug síðustu aldar við, sem þá var í algeru óefni og stigvaxandi vandamál. Útkoman af því samstarfi var forvarnalíkan, íslenska módelið sem byggir á samstarfi við fjölmarga hlutaðeigandi aðila, til að mynda foreldra, kennara, félagsmiðstöðvar, íþróttafélög og fleiri aðila í nærumhverfi barna og ungmenna. Afraksturinn hefur ekki leynt sér. Áfengis- og vímuefnaneysla ungmenna á Íslandi hefur dregist margfalt saman frá upphafi mælinga, frá árinu 1992. Árangurinn hefur svo sannarlega nýst hjá fólki sem starfar með börnum og unglingum í forvarnavinnu, meðal stefnumótunaraðila og stjórnmálamanna. Með öðrum orðum: Sú staðreynd og sá viðsnúningur í forvarnamálum hér á landi hefur ekki átt sér stað af sjálfu sér, eins og sumir þingmenn á borð við hv. þm. Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur og hv. þm. Brynjar Níelsson hafa heldur betur látið liggja að hér í dag, heldur hefur þessi viðsnúningur kostað blóð, svita og tár, mikla samhæfingarvinnu og þrotlaust samstarf, bæði fagfólks og áhugafólks um betri líðan barna okkar og ungmenna. Það væri því verulega sorglegt, svo ekki sé meira sagt, ef við myndum kasta þeirra gríðarlegu vinnu í forvörnum og þeim árangri sem náðst hefur út um gluggann með því að samþykkja að auka aðgengi að áfengi og gefa sölu þess frjálsa.

Af hverju í ósköpunum ættum við að stofna þessu merkilega starfi í voða fyrir ungmenni þessa lands?

Auk þeirra lýðheilsusjónarmiða sem fram komu við umfjöllun frumvarpsins um að gefa sölu á áfengi frjálsa á síðasta kjörtímabili má nefna yfirlýsingar samtaka sem nú hafa látið í sér heyra af því tilefni að frumvarpið er komið fram. Nefni ég sameiginlega áskorun Barnaheilla, UNICEF og umboðsmanns barna frá því á föstudaginn síðasta þar sem þau gagnrýna frumvarpið harðlega og telja það ganga þvert á hagsmuni barna og réttindi þeirra. Þau og fleiri, þar á meðal sú sem hér stendur og fjölmargir aðrir þingmenn, telja að þetta frumvarp sem við ræðum nú gangi enn lengra en áður með heimilun á auglýsingum. Í yfirlýsingu samtakanna sem vinna að velferð barna segir, með leyfi forseta:

„Börn eiga rétt á þeirri vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Samkvæmt lögum er opinberum aðilum skylt að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal á sviði löggjafar, til þess að vernda börn gegn skaðlegum áhrifum áfengis.“

Benda samtökin á rannsóknir og afstöðu fagfólks á sviði heilbrigðis og félagsmála til frumvarpsins sem snúast um það að afnám einkasölu ÁTVR og aukinn sýnileiki áfengis í auglýsingum muni leiða til aukinnar áfengisneyslu, bæði meðal unglinga og fullorðinna. Undir það tek ég.

Ætti sameiginlegt verkefni okkar allra ekki að vera að stoppa í þau göt sem menn eru að nota sér til að auglýsa, leynt og ljóst?

Í öðrum löndum sem taka lýðheilsumál alvarlega er þróunin sú hin síðari ár að hert hefur verið að áfengisauglýsingum. Sums staðar hefur áfengiskaupaaldur verið hækkaður o.s.frv.

Frú forseti. Þegar kemur að aðgengi að áfengi, hverjir eiga þá að njóta vafans? Eru það ekki börnin og heimilin? Ef fólk vill endilega sækja sér hvítvín með humrinum, getur það sama fólk þá ekki gert eins og við höfum gert undanfarna áratugi og sótt sitt hvítvín á fjölda útsölustaða áfengisverslana ríkisins á opnunartíma þeirra? Ef fórnarkostnaðurinn við að minnka samfélagsmeinið sem áfengi er og minnka þau skelfilegu áhrif sem aukin áfengisneysla hefur á ungmenni, fólk almennt og fjölskyldu, er sá að geta ekki farið í áfengisverslun á opnunartíma hef ég því miður ekki mikla samúð með fólki sem getur ekki sótt hvítvínið sitt á þeim tíma.

Ég held að það sé engum ofsögum sagt að engin fjölskylda hér á landi sé ósnortin af áfengisbölinu. Hver einasta fjölskylda hefur því miður með einum eða öðrum hætti orðið fyrir því að missa fjölskyldumeðlim í klær þess ægilega sjúkdóms sem áfengissjúkdómurinn er. Bjóðum ekki hættunni heim. Tökum mark á varúðarorðum heilbrigðisstofnana og heilbrigðisstarfsfólks og stöðvum þetta óheillafrumvarp.