146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[19:04]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir afar greinargóða ræðu. Þingmaðurinn dró mjög skýrt upp og skýrði hér hverra hagsmuna er verið að gæta með þessu frumvarpi. Það er mjög augljóst, það eru ekki hagsmunir almennings.

Ég er sammála hverju einasta orði sem þingmaðurinn sagði í ræðu sinni. Mig langar líka til að upplýsa að hér í þingsalnum sitja þrír hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins og ég spyr: Hvar eru hinir, ef ég tel rétt, 18? Það er greinilega ekki mikill einhugur í flokki Sjálfstæðismanna um þetta frumvarp. Annars væru þeir væntanlega hér til að taka þátt og draga fram sín sjónarmið.

Nú hefur komið fram, síðast í dag, að þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru alls ekki sammála. Hv. þm. Páll Magnússon sagði í ræðu fyrr í dag að hann styddi ekki þetta frumvarp eins og það liggur fyrir. Áhugavert. Mér sýnist eftir því sem á umræðuna líður að hér sé alls ekki meiri hluti fyrir þessu frumvarpi. (Gripið fram í: Hleypið þessu þá í gegn.) Því spyr ég hv. þingmann (Gripið fram í: Hleypið þessu þá í gegn.) sem ég er að spyrja hér, ekki hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þeir geta komist að og beðið um ræðu eða andsvar eins og aðrir, ég spyr: Er tíma þingsins ekki betur varið í annað en þetta? Nú gala hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins og segja: Hleypið þessu þá í gegn. Þá segi ég: Til þess að tefja tíma hv. velferðarnefndar? Ég hefði haldið að hún hefði nóg á sinni könnu. Hún hefur mörg mikilvæg mál á sinni könnu sem snúa að lýðheilsu, heilbrigðismálum, öryrkjum og öldruðum. Eigum við ekki að ræða þau mál? Eigum við í alvörunni að halda áfram að tala um þetta (Forseti hringir.) áfengisfrumvarp?