146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[19:07]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir andsvarið og tek undir orð hennar um það hvort við ættum ekki að vera að ræða önnur og mikilvægari mál en þetta gælumál þingmanna Sjálfstæðisflokksins og fylgismanna þeirra. Það var líka áhugavert sem hv. þingmaður benti á, að líklega er ekki meiri hluti fyrir þessu frumvarpi. Ansi margir Sjálfstæðismenn hafa ekki tekið þátt í þessari umræðu. Ég vil hins vegar benda hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur á hið augljósa, að einn af flutningsmönnum er formaður velferðarnefndar. Hún situr í salnum, hv. þm. Nichole Leigh Mosty. Hún er að auki talsmaður barna. Ég verð að játa hér að mér finnst ákaflega dapurlegt og sorglegt að hv. þm. Nichole Leigh Mosty sé (Gripið fram í.) fylgjandi þessu og að hún sé meðflutningsmaður á þessu frumvarpi. Þetta er svo sannarlega ekki frumvarp til framgangs velferðarmálum eða æskulýðsmálum eða til þess að þjóna lýðheilsusjónarmiðum sem ég held sannarlega að hv. þm. Nichole Leigh Mosty sé sannfærð um að þurfi að njóta brautargengis í íslensku samfélagi.