146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[19:08]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Nú er ég steinhissa, ég verð að segja það. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að hv. þm. Nichole Leigh Mosty væri einn af flutningsmönnum frumvarpsins. Mér hefur yfirsést það. Mér þykir það miður þar sem hv. þingmaður er einnig talsmaður barna og formaður velferðarnefndar. Ég hef verulegar áhyggjur af þessu því að ég tel, eins og hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, að við eigum fyrst og fremst að hafa hagsmuni barna að leiðarljósi. Börnin eiga alltaf að njóta vafans. Hér erum við með kerfi sem gengur ágætlega. Flestir eru ánægðir með þjónustu vínbúðanna. Hvers vegna eigum við að breyta kerfi sem nýtist okkur vel ef það er minnsti vafi á því að breytingin muni mögulega bitna á þeim sem minna mega sín, eins og börnum og þeim sem eiga í erfiðleikum með áfengi, sem eru því miður fjölmargir Íslendingar? Hvers vegna í ósköpunum eigum við að taka þá áhættu? Hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir getur kannski skýrt það fyrir mér. Ég skil þetta ekki. Ég skil ekki hvers vegna við erum að eyða tíma þingsins í þriðja, fjórða eða fimmta sinn sem frumvarpið er lagt fram. Þetta er þvermóðskulegt frumvarp. Ef menn vilja breyta kerfinu eins og það er geta menn fundið upp einhverjar frumlegri leiðir til þess en hér er mælt fyrir.