146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[19:10]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og lýsi því yfir að ég er henni hjartanlega sammála og lýsi sömu furðu yfir því að þetta frumvarp hafi verið lagt hér fram á tímum þegar mjög fá mál, ef nokkur, koma fram af hálfu ríkisstjórnarinnar. Á þinginu eru trekk í trekk lögð fram þingmannamál og við erum að ræða akkúrat þetta mál sem lýtur svo sannarlega í öllum umsögnum um nánast sambærilegt frumvarp sömu varúðarráðstöfunum sem eru að öll helstu fag- og félagasamtök á sviði velferðarmála og uppeldismála mæla eindregið gegn því að gerð verði breyting á lögum um verslun með áfengi og tóbak. Ég held að vilji þjóðarinnar eins og hann hefur endurspeglast í nýlegum skoðanakönnunum sé líka sá að það sé ekki almennur vilji til að breyta lögum um sölu og verslun með áfengi og tóbak. Meiri hluti þjóðarinnar vill samkvæmt skoðanakönnunum halda þessu sölufyrirkomulagi nákvæmlega eins og það er. Hér rembast nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins eins og rjúpan við staurinn við að halda á lofti ákveðnum sjónarmiðum sem gagnast ákveðnum hópi innan Sjálfstæðisflokksins og einhverjum ímynduðum kjósendahópi þess ágæta flokks.