146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[19:12]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur fyrir ræðu hennar og tek undir orð hennar þar sem hún segir að þetta frumvarp snúist algerlega um hagsmuni þröngs hóps. Það sér maður ef maður les umsagnir um málið frá fyrri þingum þegar það hefur verið lagt fram. Þar skiptast umsagnaraðilar gersamlega í tvo hópa; allir fagaðilar í heilbrigðis- og félagsvísindum vara við samþykkt þessa frumvarps og tala um hagsmuni fjölskyldna, barna og ýmsa aðra þætti sem skipta gríðarlega miklu máli. Einu aðilarnir sem mæla með frumvarpinu í umsögnum frá fyrri þingum eru talsmenn verslunar og þjónustu. Hér er gersamlega, eins og hv. þingmaður segir, verið að vinna að hagsmunum verslunar og þjónustu á kostnað samfélagsins alls.

Mig langar þess vegna að spyrja hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur: Er hún sammála mér um mikilvægi þess að farið verði í kostnaðargreiningu á samfélagslegum þáttum sem þetta gæti haft í för með sér? Umsagnaraðilar, fagfólk í heilbrigðis- og félagsvísindum, benda á að þetta muni hafa áhrif á heilbrigðiskerfið, tölur sýna í rannsóknum að afbrotum muni fjölga, það þurfi aukna aðstoð við fjölskyldur, börn og aðstandendur. Það þurfi jafnvel að styðja við skólakerfið vegna þeirra barna sem koma þar inn í og það þurfi að auka við heilbrigðiskerfið. Er hv. þingmaður ekki sammála því að gera þurfi slíka kostnaðargreiningu?