146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[19:20]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Enn og aftur ræðum við forgangsmál Sjálfstæðismanna, frumvarp um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak. Áður en ég fer í að ræða málið efnislega þá átta ég mig ekki á á hvaða vegferð Sjálfstæðismenn eru með því að leggja fram þetta þreytta mál enn og aftur. Ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa áhyggjur af því en skynja það mjög sterkt í samfélaginu að vinsældir flokksins aukast ekki með framlagningu mála sem þessara og styrkja ekki stöðu þingmanna sem að þeim standa. Þvert á móti eykst andstaða við málið eftir því sem það er lagt oftar fram. Ég ætla rétt að vona að hið sama gildi um afstöðu alþingismanna, þ.e. að hér sé ekki meiri hluti fyrir málinu. Svo ég tali nú fyrir sjálfa mig þá er ég algerlega á móti breytingum á núgildandi lögum um verslun með áfengi og tóbak og mun því segja nei ef frumvarpið kemst til atkvæðagreiðslu.

Hvers vegna er ég á móti frumvarpinu? Fyrir því eru margar ástæður. Stutta svarið er að í fyrsta lagi tel ég að framgangur málsins myndi stuðla að afturför, ekki framför, í samfélaginu á mörgum sviðum, ekki síst varðandi lýðheilsu og slík mál. Því mun ég aldrei styðja það. Í öðru lagi er engin ástæða til að breyta því ágæta kerfi sem við höfum í dag.

Ég hlustaði til að mynda á þingmann í gær, hv. þm. Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, í ræðustól Alþingis. Þar nefndi hún umrætt frumvarp og lýsti þeirri skoðun sinni að um stórkostlegt framfaramál væri að ræða, líkti frjálsri sölu áfengis í matvöruverslunum við tilkomu litasjónvarpsins og annarra tækniframfara. Þvílíkur samanburður. Staðreyndin er sú að það er eingöngu skoðun hv. þingmanns og annarra þingmanna sem leggja málið fram að um framfarir væri að ræða fengist málið samþykkt. En rannsóknir benda til annars.

Það eru heldur engin rök í málinu að nú sé árið 2017 og þess vegna sé kominn tími til að selja áfengi í matvöruverslunum og leyfa auglýsingar á áfengi í fjölmiðlum. Við ættum einmitt að vera komin á þann stað árið 2017 að við skiljum og höfum vísindalegar upplýsingar um að frjáls sala á áfengi í matvöruverslunum hefur ekkert með framfarir og frelsi að gera, heldur þvert á móti.

Hæstv. forseti. Við erum samfélag. Allt sem við gerum hefur áhrif á aðra með einum eða öðrum hætti. Við rekum samfélagið saman með sköttunum okkar og kostum m.a. heilbrigðiskerfið með þeim fjármunum. Rannsóknir sýna að aukið aðgengi að áfengi og aukinn sýnileiki auki neysluna með tilheyrandi heilsufarslegum afleiðingum og þá einkum kostnaði fyrir heilbrigðiskerfið. Viljum við það? Það vil ég ekki.

Tengsl milli áfengisvímu og skaða eru þó skýr og greinileg, sérstaklega hvað varðar ofbeldi, umferðarslys og önnur slys. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni mátti á árinu 2000 rekja 4% allra dauðsfalla og örorku í heiminum til áfengis. Áfengi reyndist því fimmti skaðlegasti áhættuþátturinn af þeim 26 sem kannaðir voru. Áfengi veldur álíka miklu heilsutjóni og tóbak. Rannsóknir sýna að áfengisneysla muni aukast um ríflega 40% með því að afnema bann við áfengisauglýsingum og leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum, með tilheyrandi langvarandi heilsufarslegum vandamálum og sjúkdómum.

Síðast en ekki síst tel ég frjálsa sölu ekki vera til hagsbóta fyrir neytendur eins og málflytjendur hafa reynt að telja okkur trú um. Sérstaklega ekki í hinum dreifðari byggðum þar sem úrval mun minnka mikið og verð mögulega hækka. Skiptar skoðanir voru um það. Það var auðheyrt í nýliðinni kjördæmaviku að íbúar á landsbyggðinni vilja flestir ekki breyta því fyrirkomulagi sem nú gildir, ekki vegna þess að þeir séu á móti áfengi og áfengisneyslu, heldur vegna þess að þeir vilja hafa greiðan aðgang að góðum vínum, góðu vöruúrvali og geta keypt sér það á sanngjörnu verði, þannig að það sem haldið hefur verið fram, að frjáls sala yrði til hagsbóta fyrir neytendur, stenst ekki hvernig sem á málið er litið.

Ég vil einnig nefna að fundarmenn í kjördæmaviku hörmuðu að málið væri komið fram yfir höfuð enn og aftur og bentu okkur þingmönnum kurteislega á að við ættum ekki að eyða tíma Alþingis í að ræða þetta mál heldur frekar uppbyggingu heilbrigðiskerfisins, samgangna og annarra innviða. En því miður erum við öll sem hér sitjum nú enn og aftur dregin inn í þennan sirkus; nú skulum við ræða áfengisfrumvarpið. Þetta er algjörlega ömurlegt.

Virðulegi forseti. Það er rétt að ítreka að þær umsagnir sem bárust til velferðarnefndar Alþingis síðast þegar málið var lagt fram voru allar neikvæðar nema umsögn verslunarmanna. Ég tel að rök landlæknis eigi að vega þyngra en rök hagsmunaaðila verslunarinnar sem vilja endilega fá áfengið inn í verslanir. Af hverju ætli það sé? Jú, sjónarmið verslunarinnar byggjast eingöngu á gróðavon, ekki umhyggju fyrir samfélaginu.

Ég skil hins vegar þau sjónarmið að sumir telja að verslun eigi ekki að vera í höndum ríkisins og get að sumu leyti tekið undir þau. En sú leið sem lögð er til í frumvarpinu, þ.e. að færa áfengi inn í matvöruverslanir og að leyfa áfengisauglýsingar, er algerlega glórulaus að mínu mati. Þetta frumvarp lýsir frjálshyggjunni í sinni verstu mynd. Mér finnst það einnig lýsa svo mikilli minnimáttarkennd. Menn tala um áfengishefðir þjóða í Suður-Evrópu. Þar er allt svo fínt og flott. Hvers vegna getum við ekki verið eins og þau? Það þykir svo elegant að drekka léttvín með mat og helst að kunna á þeim góð skil. Málið er að þetta frumvarp hefur ekkert með lekkerheit að gera. Við eigum að hafa sjálfstraust til að fara okkar eigin leiðir og nýta tækifærið og læra af reynslu annarra þjóða. Við getum verið fyrirmynd, ekki fylgjendur.

Svíar ákváðu t.d. fyrir nokkrum árum að leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum. Þeir hurfu fljótt af þeirri braut vegna þess að drykkja ungmenna stórjókst. Þeir breyttu kerfinu aftur eins og það var og nú talar enginn í Svíþjóð um að leyfa áfengi aftur í matvöruverslunum. Þeir lærðu af reynslunni. Hvers vegna viljum við endurtaka þeirra mistök? Ég bara skil þetta ekki.

Höldum áfram að tala um unga fólkið. Ég var á fundi með nemendum í Fjölbrautaskóla Suðurnesja fyrir fáum vikum. Þau veltu mikið fyrir sér afleiðingum þess að sala áfengis færi fram í matvöruverslunum, þar sem mörg þeirra starfa í slíkum verslunum meðfram námi. Þau höfðu áhyggjur af þessu máli. Þau voru ekki spennt fyrir því.

Að þessu sögðu er enginn greiði gerður með að breyta núgildandi lögum, ekki unga fólkinu, ekki þeim sem eru veikir fyrir áfengi en þurfa að fara reglulega út í búð og kaupa sér matvörur eins og aðrir, ekki fólki sem býr á landsbyggðinni og alls ekki skattgreiðendum sem þurfa að bera enn þyngri byrðar en nú ef af verður vegna aukinna útgjalda ríkissjóðs til heilbrigðismála, löggæslu og fleiri þátta sem mun reyna mun meira á en nú er. Áfengisneysla mun aukast með auknu aðgengi og auknum sýnileika, alveg sama hvað ungir Sjálfstæðismenn segja.

Ég tek frekar mark á Félagi lýðheilsufræðinga en ungum Sjálfstæðismönnum. Félag lýðheilsufræðinga sendi okkur þingmönnum nýlega bréf. Ég vona að ungir Sjálfstæðismenn og þeir þrír sem sitja enn í salnum hafi lesið þetta bréf, en ég ætla að lesa það hér upp, með leyfi forseta. Hlustum nú öll vel og vandlega því að þetta skiptir máli. Þetta er fólk sem vit hefur á málinu.

„Kæri alþingismaður/kona. Stjórn Félags lýðheilsufræðinga harmar að enn og aftur sé komið fram frumvarp um afnám einkaleyfis Áfengis- og tóbaksverslunar á smásölu áfengis og að í þetta sinn eigi einnig að heimila áfengisauglýsingar. Fagfólk hefur ítrekað bent á aukinn vanda sem mun blasa við þjóðinni vegna aukinnar áfengisdrykkju ef frumvarpið verður samþykkt og þá sérstaklega á viðkvæmum hópum. Aukið álag verður á heilbrigðiskerfið sem síst er til þess fallið að taka á móti aukinni tíðni sjúkdóma og slysa sem skapast í kjölfarið. Þetta hefur verið stutt með rannsóknum sem embætti landlæknis hefur bent á og kemur einnig fram í stefnum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Bent hefur verið á þann skaða sem aukin áfengisdrykkja mun hafa á þriðja aðila í formi ofbeldis, slysa, andlegrar vanlíðunar og fleiri þátta.

Það vekur furðu stjórnar Félags lýðheilsufræðinga að samt sem áður telja ákveðnir lýðræðislega kjörnir þingmenn það mikilvægt að koma þessu frumvarpi í gegnum þingið sem fyrst.“

Ég vil aðeins skjóta inn í að ég legg til að hv. 1. flutningsmaður frumvarpsins, hv. þm. Teitur Björn Einarsson, hætti að flissa í salnum og leggi vel við hlustir því að þarna er fólk sem hefur vit á málinu.

Með leyfi forseta, ætla ég að halda áfram að lesa bréfið frá Félagi lýðheilsufræðinga:

„Áfengi er engin venjuleg neysluvara. Á það leggjum við áherslu. Það kemur skýrt fram í riti sem er að finna á vef embættis landlæknis.“

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta mál fleiri orð að sinni. Ég vona að þessi umræða hafi áhrif á þá þingmenn sem enn eru óákveðnir. Og ég vona líka að hinir ungu glaðbeittu Sjálfstæðismenn hreinlega hlusti, læri og taki mark á því sem fræðimenn og rannsóknir sýna og dragi þetta mál hreinlega til baka. Það er til skammar að eyða tíma Alþingis í slíkt mál. Ég ætla rétt að vona að ef málið klárast ekki, fær ekki framgang í þinginu á þessu þingi, að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins nái skilaboðunum og leggi málið ekki fram aftur. Við erum eiginlega búin að fá nóg.