146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[19:32]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég ætla að grípa nokkra hluti og taka undir með henni. Þetta heyrðum við í kjördæmavikunni líka. Skólameistarar, heilbrigðisstarfsmenn og aðrir komu á fund okkar, við hittum gríðarlega margt fólk, allir þingmenn allra flokka sem á þingi eru voru saman að funda. Þar kom þetta fram hjá læknum og fleiri aðilum og spurt: Af hverju í ósköpunum enn einu sinni? Hvað er fólk að hugsa?

Við vorum á fundi nokkur um daginn með ungmennaráðum UNICEF og Barnaheilla og umboðsmanni barna. Þau spurðu líka um þetta. Þetta er ekki mál sem unga fólkið er að biðja um. Enda kemur það alls staðar fram að stór hluti landsmanna vill þetta ekki. Fyrir hverja er þá verið að berjast? Við uppfyllum ekki 3. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna með þessu þar sem við setjum hagsmuni barna í forgang þegar við tökum ákvarðanir, það er alveg ljóst. Ég held að við getum tæplega verið að uppfylla stefnu yfirvalda í vímuvörnum til ársins 2020. Ég held að þetta stangist verulega á við hana.

Ég tek undir með hv. þingmanni að ég held að fólk eigi að hugsa sinn gang enn eina ferðina. Við þurfum líka að velta fyrir okkur: Er þetta fagleg nálgun á mál yfirleitt? Ég held ekki og spyr þingmanninn hvort hún sé sammála mér í því. Er þetta á lýðræðislegum grunni? Ekki miðað við það að stór hluti þjóðarinnar hefur tekið afstöðu til þess að svo sé ekki. Hverjar eru umbæturnar í rauninni? Kerfið er gott. Það virkar vel. Það er ekki bara ánægjuvogin sem sýnir það heldur hefur kerfið virkað ágætlega að svo mörgu leyti. Það er eiginlega ekkert annað en gróðrahyggjan sem býr að baki, við getum sagt að það sé það eina sem út af stendur í þessu.

Ég spyr hv. þingmann hvort hún (Forseti hringir.) hafi ekki svipaða sýn á þessa þætta og ég og hvort hún telji þetta standast barnasáttmálann og ýmis önnur lög.