146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[19:35]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum gott andsvar.

Ég er á sama stað og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Eins og ég sagði í framsöguræðu minni áðan þá átta ég mig ekki á þessu. Eða jú, ég átta mig á þessu, tilgangurinn er náttúrlega að þjónusta verslunarmenn. Það eru náttúrlega þeir sem hagnast. Þeir einir hagnast ef þetta nær fram að ganga á kostnað allra hinna. Er eitthvað vit í því? Nei, það er ekkert vit í því.

Ágæt spurning sem ég fékk frá hv. þingmanni: Er þetta fagleg nálgun? Nei, þetta er ekki fagleg nálgun. Hér hefur komið fram í mörgum ræðum í dag og á fyrri þingum, svo við rifjum það nú aðeins upp líka, að fjölmargar niðurstöður rannsókna út um heim allan sýna okkur skýrt að breyting á núverandi kerfi yrði afturför. Hvers vegna viljum við breyta kerfi sem tekur okkur til baka? Við erum að taka óþarfaáhættu fyrir samfélagið allt með óþekktum kostnaði. Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins glenna yfirleitt upp augun þegar maður talar um kostnað og peninga þannig að þau rök ættu nú að duga til til þess að hægja á þeim í þessu máli, ég vona það. Umbætur fylgja þessu náttúrlega ekki. Eins og hv. þingmaður sagði í andsvarinu þá erum við með gott kerfi. Ég tek undir það. Það er hreinlega ekkert í þessu sem yrði til bóta. Ekki neitt.