146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[19:37]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það sem kom kannski aðeins við mig í dag var að hv. framsögumaður hunsaði nánast vísindalegar rannsóknir. Mér fannst það mjög athyglisvert og segir kannski meira um framsögumanninn en margt annað. Mér finnst það hins vegar varhugavert að leyfa sér að segja svona í pontu þingsins. Ég vona að þetta sé bara einskorðað við þetta eina mál af því að honum hugnast ekki eitthvað annað.

Það sem maður hefur líka áhyggjur af er hagnaðarhvatinn. Hann er í rauninni ekki til staðar í dag hjá ÁTVR, það er ekki markmiðið að græða, en það er auðvitað markmið stóru aðilanna eins og Haga og fleiri aðila, verslana, að græða. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að hér er verið að horfa til sérhagsmuna en ekki hagsmuna (Forseti hringir.) samfélagsins alls. Það að Hagar eru þegar búnir að útvega sér 75 áfengisumboð segir manni eitthvað. Menn (Forseti hringir.) bíða í startholum og treysta því að þessi últrahægrisinnaða ríkisstjórn komi þessu í gegn.