146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[19:40]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir skýra og skelegga ræðu hér áðan. Ég er henni sammála í öllum meginatriðum. Mig langar til að fá að heyra viðhorf hennar varðandi það atriði í frumvarpinu sem lýtur að auglýsingum á áfengi. Það hefur sannarlega komið fram gagnrýni í sameiginlegri áskorun Barnaheilla, UNICEF og umboðsmanns barna vegna frumvarpsins og sömuleiðis hjá Foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum varðandi þessa breytingu á lögunum sem gengur í raun lengra en þau frumvörp um sölu á áfengi og tóbaki í frjálsri verslun sem verið hafa til umfjöllunar á þinginu. Þarna er í rauninni gengið lengra. Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum segja, með leyfi forseta:

„Þarna er um að ræða ákall um afturför í lýðheilsumálum, aðför að sjálfsögðum réttindum barna og ungmenna til að vera laus við áfengisáróður og gengur í öllum meginatriðum gegn öllum markmiðum í forvarnastarfi og í berhögg við opinbera lýðheilsustefnu sem almenn sátt hefur verið um.“

Mig langar til þess að heyra mat og skoðun hv. þingmanns á þeirri breytingu sem fram kemur í frumvarpinu, þ.e. varðandi heimild á áfengisauglýsingum.