146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[19:42]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Rósu Björgu Brynjólfsdóttur andsvarið. Eins og ég sagði áðan hef ég mjög miklar áhyggjur af þeirri breytingu sem frumvarpið felur í sér, þ.e. að áfengisauglýsingar verði einnig leyfðar. Ég heyrði að einn hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Hildur Sverrisdóttir, sagði í ræðu sinni fyrr í dag að áfengisauglýsingar væru hvort eð er alls staðar, þær væru á netinu, þær væru í blöðum og annars staðar. Ég sem á tvö ung börn get sagt það hér að mín börn eru mjög lítið á netinu og þau lesa ekki erlend tímarit eða blöð enn sem komið er. Ég ætla að hafa það þannig. Auðvitað getur maður ekki verndað börnin sín endalaust, en eins og áður hefur komið fram fylgir aukin neysla auknum sýnileika. Verið er að normalísera áfengisneyslu við ýmis tilefni. Börn eru áhrifagjörn. Þau eru miklu áhrifagjarnari en við fullorðna fólkið. Þau eru móttækileg fyrir þessum auglýsingum.

Við höfum náð gríðarlegum árangri í forvarnastarfi gegnum árin, gríðarlegum árangri. Ég vil ekki taka þá áhættu að breyta núverandi lögum um áfengisauglýsingar. Hvers vegna í ósköpunum? Vegna þess að aðrar þjóðir leyfa það? Vegna þess að þetta er alls staðar annars staðar? Þau rök duga ekki fyrir mig.

Lýðheilsustefna sú sem fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, núverandi menntamálaráðherra, samþykkti og lagði fram, spilar engan veginn við þetta frumvarp. Það gengur algerlega í berhögg við þá lýðheilsustefnu sem nú gildir sem við vinnum samkvæmt. Hvers vegna erum við að ræða þetta hér?