146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[19:44]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skýr svör. Ég deili þessum áhyggjum með hv. þingmanni, þ.e. varðandi sýnileika áfengis í auglýsingum. Bæði fræðimenn og sérfræðingar hafa áhyggjur af auknum sýnileika áfengis í auglýsingum. Ef við lögleiðum þann sýnileika munum við sjá fleiri auglýsingar. Þær munu að sjálfsögðu beinast gegn ungmennum og börnum, eins og hv. þingmaður kom inn á.

Næsta spurning mín átti einmitt að fjalla um lýðheilsusjónarmiðin sem koma fram í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Af því að hv. þingmaður kom inn á lýðheilsustefnu sem fráfarandi heilbrigðisráðherra kom á fót er líka ágætt að vekja athygli á því. Mig langar að heyra skoðun hv. þm. Silju Daggar Gunnarsdóttur á því hvernig þetta frumvarp samrýmist áherslum nýrrar ríkisstjórnar á (Forseti hringir.) lýðheilsusjónarmiðin. Hvernig fer það hreinlega saman?