146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[19:45]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Stutta svarið er náttúrlega að þetta fer alls ekki saman. Ég fór yfir það í ræðu minni og las upp bréf frá Félagi lýðheilsufræðinga þar sem þau mótmæla harðlega fram komnu frumvarpi og fara ítarlega yfir ástæður þess að þau telja það ekki vera framfaraskref frekar en sú sem hér stendur. Það þarf í sjálfu sér ekki að hafa um það fleiri orð. Mér þætti vænt um að heyra um þetta ósamræmi við núgildandi lýðheilsustefnu sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson lagði hér fram og ég tel vera mjög góða. Það kemur kannski fram í ræðum hér á morgun þegar fleiri hv. þingmenn taka til máls. Stjórnarsáttmáli núverandi ríkisstjórnar hvað þetta varðar er einnig góður. Þetta er bara í fullkomnu ósamræmi við það sem fólk hefur talað um og mælt fyrir.