146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[19:47]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka framsögu hv. þm. Silju Daggar Gunnarsdóttur og vil segja að ég er henni hjartanlega sammála. Ég er dálítið undrandi á málflutningi kollega minna í þessu máli. Ég hélt að ég myndi koma hérna og byrja á því að óska Sjálfstæðisflokknum til hamingju með að vera með kominn með eitt forgangsmál en ég hefði kosið að það væri ekki áfengisfrumvarpið. Það er undarlegt að þetta sé sett í forgrunn á nýhöfnu þingi, að þetta sé eitt aðalatriðið og við séum að eyða öllum þessum tíma þegar allar rannsóknir sýna okkur að aukið aðgengi þýðir aukin neysla. Það vill bara þannig til að árangur af þessari stefnu á Íslandi er mjög góður. Ég á ofboðslega erfitt með að skilja af hverju við ætlum þá að breyta einhverju sem virkar þokkalega í okkar samfélagi. Ég verð að viðurkenna að ég er bara talsvert íhald í mér hvað varðar þennan málaflokk. Þetta hefur verið vel heppnað hjá okkur.

Það kemur fram hjá landlæknisembættinu að aukið aðgengi að áfengi leiði til aukinnar áfengisneyslu, eins og ég nefndi áðan, sem er líklegt til að auka tíðni einstaklingsbundinna og samfélagslegra vandamála sem geta tvöfaldað samfélagslegan kostnað vegna áfengisneyslu. Mig langar að spyrja hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur: Hver er þín tilfinning fyrir því hvort búið sé að meta þennan samfélagslega kostnað?

Ég sakna þess þegar ég lít á þetta mál hjá Sjálfstæðisflokknum og þeim sem eru með honum að ekki sé búið að skoða þetta betur og athuga hver kostnaðurinn er. Mér finnst alveg með ólíkindum þegar þessir þingmenn eru tilbúnir að taka þetta stóra skref að þeir séu ekki búnir að vinna málið betur.