146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[19:49]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Dögg Alfreðsdóttur kærlega fyrir gott andsvar. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, rannsóknir sýna okkur að aukið aðgengi eykur neyslu. Ég nefndi áðan reynslu Svía af þessu máli. Þeir fóru þá leið að leyfa áfengi í matvöruverslunum og hurfu svo frá því kerfi. Enginn ræðir lengur um að þeir vilji breyta því aftur til baka. Svíar eru ekki forpokuð þjóð. Ég myndi segja að Svíar væru lekker þjóð og framfarasinnað fólk. Ég held að við ættum frekar að horfa þangað en til Dana sem eru í gríðarlegum erfiðleikum vegna áfengisneyslu, sérstaklega ungmenna. Gríðarlegt vandamál er þar, tíðni áfengistengdra sjúkdóma, slysa og fleiri hluta er stórt vandamál. Það er ekki nein fyrirmynd sem við viljum fylgja í þessum málum.

Eins og ég sagði áðan var ég einnig að vonast til að hinir ungu og glaðbeittu þingmenn Sjálfstæðisflokksins kæmu fram með annað forgangsmál og tek þar undir með hv. þm. Lilju Dögg Alfreðsdóttur, ungt fólk, nýkomið á þing og hugmyndaríkt. Ég var að vonast til að fá að sjá eitthvert raunverulegt framfaramál, eitthvað sem gæti skilað samfélaginu gróða á ýmsa vegu.

Áðan kom einmitt fram að þetta hefur ekki verið kostnaðarmetið. Enginn í þessum sal hefur talað um það og ég veit ekki til þess að kostnaðurinn hafi verið metinn. Við höfum rætt fjálglega í þinginu um geðheilsu Íslendinga. Við þurfum að bregðast við því. Við þurfum að bæta þann málaflokk. Við þurfum að bæta verulega fjármunum til löggæslunnar. Við þurfum að bæta heilbrigðiskerfið okkar.

Aukin neysla áfengis sem verður án efa með auknu aðgengi og sýnileika eykur þennan kostnað. (Forseti hringir.) Það þarf engan sérfræðing til að sjá það.