146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

störf þingsins.

[10:37]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að nýta tímann sem ég hef í ræðustól til að fagna sérstaklega þeim umræðum sem áttu sér stað í gær varðandi frumvarp um brennivín í búðir. Þær umræður spönnuðu vítt svið, allt frá hálfgildingsafneitun vísindanna yfir í hugleiðingar um frelsi einstaklingsins og með viðkomu víða á milli. Það var athyglisvert að hjá flestum ef ekki öllum sem tóku til máls mátti finna mikinn samhljóm og vilja til að efla forvarnir. Hver á fætur öðrum komu þingmenn upp í pontu, hvar í flokki sem þeir stóðu, og lýstu því yfir að fræðsla og forvarnir væru leiðin til að berjast við óæskilegar hliðar áfengisneyslu og að auka þyrfti fjármuni þar til. Mig langar að hvetja þær stofnanir og samtök og þá aðila sem starfa í þessum geira til að hlusta vel eftir þessum orðum þingmanna, því að það hlýtur að vera vilji til þess hjá þingmönnum að efla forvarnir og fræðslu algjörlega óháð því hvort umrætt frumvarp hlýtur brautargengi eða ekki. Ég vil því hvetja okkur öll í þessum sal til að taka höndum saman. Best væri einfaldlega að taka upp fjáraukalögin og snarauka framlag til málaflokksins, því að margir í þessum málaflokki gengu bónleiðir til búðar þegar þeir komu hér og bönkuðu upp á í desember þegar verið var að vinna fjárlögin. Þá var skilningurinn um mikilvægið ekki alveg jafn mikill, en batnandi manni er best að lifa. Ég fagna því að þessi mikla samstaða virðist hafa náðst hér þvert á flokka.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna