146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að taka undir með hv. þm. Teiti Birni Einarssyni um það sem fór fram í andsvörum í gær. Ég skil vel að fólk hneykslist á umræðum í þingsal sem líkjast frekar leikskólaumræðum og niðurrifi í garð þingmanna sem ekki geta svarað fyrir sig í slíkum dagskrárlið.

Mig langar líka aðeins að ræða annað varðandi umræðuna í gær, þann tvískinnung sem kemur oft fram í máli einstaklinga sem alhæfa að málið myndi ekki hljóta meiri hluta í þinginu, kvarta yfir því að tíma þingsins skuli varið í að ræða þetta mál en ræða það samt ítrekað í þingsal og fara upp í fleiri andsvör en ég gæti talið á fingrum annarrar handar.

Ég held að flutningsmenn málsins væru fegnir að fá málið í atkvæðagreiðslu, en hér er ítrekað komið í veg fyrir þinglega meðferð málsins. Það hefur aldrei komist í atkvæðagreiðslu. Af hverju ekki? Af hverju klárum við ekki málið? Sleppum því að orðlengja þetta ef þingmenn ætla að fella málið. Þá geta þeir fellt það með bros á vör og við getum gengið frá því og klárað venjulega þinglega meðferð málsins. Við þurfum ekki að ræða þetta fram og til baka. Þingmenn þurfa ekki að berjast fyrir því að málið komist ekki í venjulega þinglega meðferð og fái ekki atkvæðagreiðslu í þinginu. Greiðum atkvæði um það og sjáum hvernig það fer.