146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég er almennt talað ekki mikið fyrir framhaldsumræðu í þinginu eins og svolítið hefur verið stunduð hér í þessari viku. Ég verð þó að geta þess í tilefni af umræðu sem átti sér stað við upphaf þingfundar á miðvikudag og snerist um fjarvist þingmanna Viðreisnar og Bjartrar framtíðar í sérstökum umræðum á þriðjudaginn að skrifstofa þingsins hefur gert ákveðna úttekt á því sem leiðir í ljós að þegar skoðað er sex ár aftur í tímann er allalgengt að flokkar sitji hjá við umræður af þessu tagi. Það er auðvitað misjafnt eftir flokkum en það kemur hins vegar í ljós í þeirri samantekt að það er ekki rétt sem hér var haldið stíft fram af hálfu ýmissa hv. þingmanna í þeirri umræðu, að algjörlega óþekkt væri að flokkar létu sig vanta í sérstaka umræðu þegar upp á hana væri boðið. Þessi listi, ég ætla ekki að rekja hann, leiðir í ljós að um þetta eru fjöldamörg dæmi. Það eru tímabil þarna þar sem þingflokkar, reyndar litlir, hafa ekki sýnt sig í sérstökum umræðum. Því vildi ég halda til haga vegna þess að um þetta atriði voru höfð uppi afar stór orð á miðvikudaginn. Ég vildi alla vega hvað mig varðar loka þeirri umræðu að því leyti án þess að kasta inn nokkrum fýlubombum eða öðru slíku af því tilefni.


Efnisorð er vísa í ræðuna