146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[11:14]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum svarið og fyrir að minna mig á að oddatölum sé ekki hægt að skipta jafnt í tvo hluta. Ég áttaði mig nú svo sem alveg á því.

Ég verð að viðurkenna að ég fylltist ekki mikilli von við svar þingmannsins af því að það hljómar eins og hún myndi sætta sig við að hingað kæmi listi með 15 einstaklingum af öðru kyni ef hæfnisnefndin raðaði þeim svo. Það er hins vegar þannig að ráðherra fær í hendurnar hæfnismat á öllum umsækjendum frá hæfnisnefndinni og ráðherra hefur svigrúm til að bregðast við ef hallar á annað kynið í þeim lista sem er metinn hæfastur, af því að þessi hæfisskilyrði eru ekki algild; þetta er engin stærðfræðileg nákvæmni.

Það að ráðherra velji það kyn sem hallar á þegar velja þarf á milli tveggja jafn hæfra einstaklinga — fyrirgefið, mér finnst það bara óttalega lítil krafa. Það heitir bara að fara að lögum. Þess vegna viljum við bæta inn skýrri setningu í lagagreinina, markmiði um að ráðherra komi ekki hingað inn með ómögulegan lista heldur með lista þar sem sem jafnast hlutfall kynja er.

Ég spyr þingmanninn aftur: Segjum sem svo að ráðherra komi með lista af dómaraefnum sem ekki uppfylli lágmarksskilyrði um jafnan hlut karla og kvenna, mun þingmaðurinn slást í lið með okkur og beita sér fyrir því að bæta þar úr?