146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

æskulýðsmál og samfélagsþátttaka ungs fólks á Íslandi.

[12:35]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mikilvæga mál upp og ég veit að hann er afar vel að sér og vel heima í þessum málaflokki og þakka honum fyrir það enn og aftur að vekja máls á þessu og vænti góðs samstarfs við hv. þingmann í þessum efnum.

Hann beindi til mín nokkrum spurningum sem ég ætla að fara yfir í þessari ræðu minni. Ég kem fyrst að hugleiðingum hans um kosningaþátttöku. Það er ekki hægt að segja með vissu að kjörsókn ungs fólks fari minnkandi enda var kjörsókn ekki skráð eftir aldri eða aldurshópum á Íslandi fyrr en í síðustu sveitarstjórnarkosningum árið 2014. Það er hins vegar ýmislegt sem bendir til þess að svo sé. Erfitt er að benda á sérstakar aðgerðir sem spornað geta við og gegn dræmri kjörsókn en mörg atriði þarf að skoða í því ljósi. Til að mynda eru upplýsingar og fræðsla mikilvægur þáttur í því að auka meðvitund fólks um réttindi sín og ábyrgð. Aldursgreining kosningaþátttöku er mikilvæg svo fylgjast megi með þessari þróun og slíkar upplýsingar geta verkað og virkað sem hvatning til ungmenna til að mæta á kjörstað og láta málin til sín taka.

Þá eru verkefni á borð við skuggakosningar að mínu mati mjög jákvæð þróun. Í aðdraganda kosninga síðasta haust var verkefnið #égkýs sem er skuggakosningar í framhaldsskólum framkvæmt og kynnt í framhaldsskólum landsins og sömuleiðis í efstu bekkjum grunnskóla. Verkefnið var unnið af Landssambandi æskulýðsfélaga, LÆF, og Sambandi íslenskra framhaldsskóla en styrkt af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, innanríkisráðuneytinu, mennta- og menningarmálaráðuneytinu sömuleiðis og síðast en ekki síst af Æskulýðssjóði.

Ráðuneytið hefur átt í nánu samstarfi við skipuleggjendur og hvatti framhaldsskólana til þátttöku og tók einnig þátt í vinnuhópi með umboðsmanni barna, Menntamálastofnun og KrakkaRÚV um þróun og frekari kynningu á þessu góða verkefni.

Samkvæmt mínum upplýsingum hyggst Samband íslenskra sveitarfélaga halda áfram með þetta verkefni fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar og það er vel. Niðurstöður skuggakosninganna í framhaldsskólunum gáfu ýmsar vísbendingar um það hvernig frekari fræðsla og kynning gæti verið en fyrst og fremst kölluðu þær niðurstöður sem greindar hafa verið á nauðsyn þess að gera þarf kosningum og mikilvægi kosningaþátttöku miklu betur skil meðal ungs fólks.

Að mínu mati er mikilvægt að þróa þetta verkefni áfram í góðu samstarfi við alla samstarfsaðila sem ég nefndi hér að framan, bæði stofnanir og félagasamtök.

Æskulýðslög sem hv. þingmaður vitnaði til miðast einkum við börn og ungmenni á aldrinum 6–25 ára og það er ljóst að umgjörð og markmið æskulýðsstarfs með börnum getur verið mjög frábrugðið starfi með ungmennum. Mögulega er ekki heppilegt að fella þessa hópa saman en þó ber að geta þess að samkvæmt íslenskum lögum teljast ungmenni börn allt að 18 ára aldri. Stjórnvöld á Íslandi hafa lengi vel lagt meiri áherslu á barnastarf og umgjörð þess en sjálfboðastarf ungmenna. Æskulýðslögin ná til 25 ára aldurs og fjalla um skipulagt æskulýðsstarf en ekki um sjálfboðaliða þrátt fyrir að starf þeirra sé mikið á sviði æskulýðsmála en lagaleg staða sjálfboðastarfsins er hins vegar óljós og til skoðunar hjá Vinnumálastofnun.

Þessi umgjörð og áherslur kunna að gera að verkum að ungmenni, 15–35 ára eða 18–35 ára, og mikilvægi félagsstarfs á þeim aldri gleymist og vel má vera að heppilegra sé að greina þessa hópa í sundur og skapa fjölbreyttari umgjörð sem og að gera mismunandi kröfur til félagsstarfsins innan þessara aldurshópa. Skipting 6–15 ára og 16–35 ára gæti til að mynda fallið nokkuð vel að samfélagsmynstri á Íslandi í dag og þá skilgreiningu má vissulega skoða og endurbæta í æskulýðslögum.

En af því að hv. þingmaður velti upp þessum spurningum, sérstaklega varðandi Æskulýðssjóðinn, vil ég geta þess að vissulega má skoða og bæta þann sjóð en hann er samkeppnissjóður og getur verið gott tæki til að styðja við félagsstarf ungmenna. Við erum að hefja undirbúning að því að endurskoða æskulýðslögin og þar á meðal um Æskulýðssjóðinn og hvernig hann geti nýst fleirum en hann gerir í dag og þá með hvaða hætti. Þegar sú vinna fer að stöfnum vænti ég þess að geta átt sem best samstarf við alla þá sem þessi málaflokkur snertir.