146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

æskulýðsmál og samfélagsþátttaka ungs fólks á Íslandi.

[12:43]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. þm. Viktori Orra Valgarðssyni fyrir að vekja athygli á þessu alvarlega samfélagsmáli, þ.e. allt of lítilli kjörsókn meðal ungs fólks. Ég tel að þingmaðurinn hafi nokkuð til síns máls þegar hann talar um mikilvægi félagsstarfs til að ýta undir lýðræðislega þátttöku. En kannski til að byrja með vil ég samt segja að í mínum huga eru öll samfélagsmál málefni ungs fólks. Ég held að við ættum að reyna að hugsa þetta dálítið meira þannig, af því að öldrunarmál sem dæmi eru líka málefni ungs fólks. Auk þess er því farið með þetta mál eins og flest þau mál sem rista djúpt að þau verða seint leyst með peningum. Vandinn sem birtist í bágri þátttöku ungs fólks í kosningum er að mínu mati einmitt djúpstæðari en að það vanti í þennan málaflokk mikið af peningum. Hann kemur inn á traust til okkar stjórnmálamanna, traust á Alþingi. Við kaupum ekki traust.

Í mínum huga er ljóst að við sem hér sitjum, okkur hefur verið falið það traust að vinna í samræmi við hugsjónir hreyfinga okkar en það er alveg ljóst að við verðum að huga að virðingu Alþingis. Ég segi fyrir mig, og ég tel að það eigi við flesta, að ég treysti ekki þeim sem ég virði ekki. Ef ég treysti ekki stjórnmálamönnum, af hverju ætti ég þá að kjósa þá? Við verðum að huga að því hvernig við komum fram í þinginu og í störfum þess, hvort sem er í nefndum eða í þingsal, hvernig við tölum út í samfélagið en líka hvernig tölum og komum fram hvert við annað hér í ræðustól. Ef við erum ekki fagleg, ef við erum ekki málefnaleg og sýnum ekki ábyrgð í störfum okkar og orðum er erfitt að sjá hvernig við eigum að geta áunnið okkur traust. (Forseti hringir.) Við verðum að sýna í orðum og verki að við berum virðingu fyrir þeirri stofnun sem við höfum verið kjörin til að vinna fyrir, landi og þjóð til heilla.