146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

æskulýðsmál og samfélagsþátttaka ungs fólks á Íslandi.

[12:59]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Virðulegi forseti. Mig langar að segja svo að það fari ekkert á milli mála að ég tek undir orð hv. þm. Viktors Orra Valgarðssonar um að stjórnvöld eiga að styðja við og hvetja ungt fólk til lýðræðislegrar þátttöku. Ég get líka tekið undir orð hæstv. ráðherra um mikilvægi þess að fylgjast náið með þróun kosningaþátttöku yngri aldurshópa meðal kjósenda. Við eigum og verðum að vinna markvissar að því í íslensku menntakerfi að efla lýðræðisvitund barna og ungmenna. En eins og ég sagði í fyrri ræðu minni þá vil ég leggja þunga áherslu á að við sem hér störfum eigum og verðum að sýna gott fordæmi. Við verðum að ávinna okkur traust. Menntakerfið gerir það ekki fyrir okkur, menntakerfið ávinnur okkur sem hér störfum ekki traust. Félagsstarfið gerir það ekki heldur. Við verðum að ávinna okkur það traust sem til þarf til að ungt fólk finni til hvata til að velja sér fulltrúa á Alþingi eða styðja þá áfram til góðra verka. Lýðræðið virkar ekki ef almenningur tekur ekki þátt, það er algjörlega augljóst.

Að öllu þessu sögðu langar mig að spyrja málshefjanda, hv. þm. Viktor Orra Valgarðsson, hvort hann þekki til þess hvort gerðar hafi verið rannsóknir á alþjóðavettvangi á því hvort þeir sem taka ekki þátt í kosningum snemma eftir að hafa náð kosningaaldri haldi síðan áfram að kjósa ekki seinna á ævinni.

Þá langar mig líka að taka undir spurningu hv. þm. Nichole Leigh Mosty og spyrja hv. þingmann hvort hann hafi velt fyrir sér hvernig hægt væri að haga því að færa kjörstaði nær fólki.