146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[14:02]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að fagna því að ég náði að koma í andsvör á undan Kolbeini Óttarssyni Proppé, eða herra Proppé eins og hann er kallaður núna, en ég verð að gera smáathugasemd við staðreyndir í þessu. Slæmur kynjahalli í dómskerfinu — ég hef unnið í þessu dómskerfi í 30 ár, þar er ekki slæmur kynjahalli. Eini hallinn á kynjunum er í Hæstarétti.

Hv. þingmaður talar hér, ég get ekki skilið ræðuna öðruvísi en þannig, um að rétt sé að setja á kynjakvóta. Með því að setja kynjakvóta þá tekurðu úr þá mikilvægu reglu að alltaf eigi að veita þeim hæfasta embættið hvar sem það er. Er það ekki, ef við búum til svona reglu? Ég veit að þingmaðurinn mun segja: Bíddu, konur eru ekkert óhæfari en karlar. Ég er ekki að segja það heldur. Þetta snýst um umsækjendur hverju sinni. Við höfum þessa reglu um öll störf. Ef við ætlum núna allt í einu að segja að sú regla gildi ekki heldur kvótaregla, þá er það mismunun, þá er það andstætt öllum meginreglum um þetta. Þannig að kynjakvóti gengur ekki upp í þessu.

Varðandi það að setja þetta í lögin þá eru almenn lög sett til þess að við þurfum ekki að setja sömu ákvæðin í öll sérlög. Stjórnarskráin gildir alltaf. Almenn lög gilda alltaf um hvað sem er. Við þurfum ekkert að setja slíkan texta í hver einustu lög sem við setjum (Forseti hringir.) til að hnykkja á einhverju.