146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[14:04]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni fyrir hans andsvar. Ég er að sjálfsögðu ekki sammála hv. þingmanni um að ekki halli á konur í dómskerfinu. Hv. þingmaður nefnir Hæstarétt sem er æðsta dómsvald í landinu. Þar hefur hallað á konur svo áratugum skiptir ef ekki hundruðum ára. (BN: Það var ekki hjá því komist.)

Af því að hann talar gegn kynjakvóta þá vil ég aftur vísa til þess, ef hv. þingmaður hefur ekki heyrt ræðu mína, að það er samt sem áður kynjahallinn í dómskerfinu sem nefnd Sameinuðu þjóðanna gagnrýnir og leggur til sértækar aðgerðir á borð við kynjakvóta til að leiðrétta þann halla. Sameinuðu þjóðirnar sjá að við höfum ekki verið að uppfylla þau skilyrði sem nefndin setur okkur vegna samninga um afnám allrar mismununar gagnvart konum.

Hv. þingmaður spyr: Af hverju ættum við að setja þetta inn í þessi lög, ef lög á borð við jafnréttislög eru ríkjandi? Það eru fordæmi fyrir því. (Gripið fram í.) Það eru fordæmi fyrir því í dómstólalögum þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra skal gæta þess við skipun í nefndina að kröfum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við skipun í ráð og nefndir sé fullnægt.“

Það eru fordæmi fyrir því að taka upp jafnréttislög og setja þau inn í önnur lög. (BN: Þessi lög.) Akkúrat þessi lög um dómstólana. Vegna hvers? Vegna þess að það hallar á konur í dómskerfinu. Fram hjá því er ekki hægt að horfa, hv. þm. Brynjar Níelsson, sama hvað þú rembist við það. Það hallar á konur og það þarf að setja lög um það. Það er ekki nóg að segja að jafnréttislög ríki. Það eru fordæmi fyrir þessu. (Forseti hringir.) Við ættum að byrja á því núna þegar við erum að koma á nýju millidómstigi að byrja frá grunni (Forseti hringir.) og hafa þetta inni í lagatextanum.