146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[14:09]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er fræðandi og áhugaverð umræða. Mig langar aðeins að ræða og spyrja hv. þingmann um þær breytingar sem við gerðum, sem allur þingheimur var sammála um, á síðasta kjörtímabili um að tryggja að í hæfnisnefnd, sem tilnefnt er í af Hæstarétti og fleirum, væru karlar og konur þannig að hægt væri að tryggja jafnrétti. Það var leiðin sem við ákváðum að fara til þess að bæta þetta ferli og tryggja það að vilji löggjafans kæmi skýrt fram, að við vildum að jafnréttislög og jafnréttissjónarmið yrðu höfð að leiðarljósi. Telur hv. þingmaður það úrræði ekki duga? Hvað hefur breyst síðan þingið ákvað þetta? Hvað hefur breyst? Af hverju treystir hún ekki þessari aðgerð sem var gerð og af hverju treystir hún því ekki að jafnréttislög, sem eru almenn lög í landinu og hæstv. dómsmálaráðherra hefur lýst yfir að hún telji sig vera bundna af við ákvörðun um skipun dómaranna, sem þarf svo að koma fyrir þingið með endanlegum lista? Ég vil bara fá svör við því. Hvað er það sem bætir við þetta mál sem við erum að ræða hér? Af hverju getum við ekki treyst því ferli sem Alþingi ákvað að setja þetta í? Af hverju getur hv. þingmaður ekki treyst þeim lögum sem gilda í landinu og hæstv. dómsmálaráðherra hefur lýst yfir að gildi? Hverju er þessi lagabreyting sem við ræðum hér að bæta við?