146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[14:13]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var einmitt það sem ég var að benda á að sú hæfnisnefnd sem mun fjalla um þær tillögur sem koma inn til ráðherra, og ráðherra búinn að lýsa yfir að þurfi þá að fara eftir jafnréttislögum, hún er ný út af því að Alþingi breytti lögunum, og þá er tilnefningin í hana öðruvísi. Það er sú hæfnisnefnd sem mun tilnefna listann yfir þá hæfustu eða þá sem eru hæfir í starfið. Þannig gilda jafnréttislögin. Þegar búið er að finna þann hæfasta þá koma þau og taka við. Það er á þeim tímapunkti sem ráðherrann tekur við.

Í nákvæmlega þessu ferli eru til dómafordæmi af því að núverandi jafnréttislög hafa virkað. Þess vegna er ég alltaf að reyna að spyrja: Hvað er sú breyting sem við ræðum hér að fara að leggja til aukalega? Ég spyr þá bara beint: Er verið að fara að setja inn í lögin að segja ráðherranum að fara eftir lögum? Er það það sem við erum að gera? (Forseti hringir.) Eða er verið að fara að útskýra hvernig ráðherra á að nota svigrúm sitt?