146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[14:14]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið á ný. Það er rétt, það er mikið svigrúm fyrir ráðherra og fyrir Alþingi samkvæmt frumvarpi dómsmálaráðherra. En ég vil þá kannski líka höggva í sama knérunn og í svari mínu til hv. þm. Brynjars Níelssonar, að það eru lög um skipun dómara í landinu þar sem jafnréttislögin eru tekin inn. Það er ekki að ástæðulausu. Það er ekki að ástæðulausu að minni hlutinn telur að það þurfi að hafa skýrt í lagatextanum sjálfum ákvæði sem kveða á um að ráðherra skuli gæta þess að kröfum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sé fullnægt. (Gripið fram í: Þessum spurningum …) Þetta er ekki róttækur texti, Vilhjálmur Árnason. (VilÁ: Hverju bætir það við?)Þetta tryggir það að þetta sé haft í lagatextanum en ekki í nefndaráliti. Þetta tryggir það að þetta sé haft inni í lagatextanum nákvæmlega eins og í lögum um dómstóla. Af hverju ekki núna, af hverju var það hægt þá? (Gripið fram í.) Ég skil ekki þessa mótstöðu, frú forseti. (Forseti hringir.) Ég skil ekki þessa mótstöðu sem fram kemur í máli hv. þm. Vilhjálms Árnasonar og hv. þm. (Forseti hringir.) Brynjars Níelssonar.