146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[14:16]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu sérstaklega mikið. Ég ætla að gera þá játningu að þetta er eitt af þeim fjölmörgu málum sem hafa komið hér fram sem ég hef ekki sökkt mér ofan í af mikilli einurð, frekar verið að kafa á yfirborðinu, og hef leyft mér það að hlusta á umræðurnar. Enda held ég reyndar að við eigum að nýta okkur þá málstofu sem Alþingi er meira til þess að ræða hvert við annað jafnvel þótt við séum sammála, ræða okkar á milli og reyna að komast betur að kjarna málanna.

En ég kvaddi mér hljóðs til að halda áfram að játa það að ég einfaldlega skil ekki neitt í neinu þegar kemur að málflutningi meiri hluta hv. allsherjar- og menntamálanefndar, þeirra hv. þingmanna sem hér hafa talað því til stuðnings. Mér finnst algjört ósamræmi vera í þeirra málflutningi. Í einu orðinu er sagt að það að setja þetta ákvæði eða þessa setningu inn í lagatextann sé of íþyngjandi, þetta beri of brátt að, það sé ekki rétt að bæta þessu við án frekari umsagnar og yfirlegu. En svo er sagt í hinu orðinu að það sé bara alveg skýrt að ráðherra skuli fara eftir jafnréttislögum. Hvert er þá vandamálið? Hver er munurinn á því? Ég hef ekki fengið svar við því. Það er ágætt að hv. þm. Brynjar Níelsson hefur gefið merki um að hann vilji fara í andsvar, hann er löglærður maður og með mun meiri þekkingu á þessu máli en ég, hann getur þá kannski útskýrt það fyrir mér. Ef niðurstaðan er sú sama eins og hv. stuðningsmenn meirihlutaálitsins hafa verið að tala um, að ráðherra beri alltaf að fara eftir jafnréttislögum — hvaða vandamál er þetta hjá ykkur, af hverju setjið þið þetta ekki bara í greinargerðina? er svona mín túlkun á þeim málflutningi — hvert er þá vandamálið að hafa þetta í lagatextanum? (BN: Það er þá vandamál að sleppa því.)

Ef það er ekkert mál, hv. þm. Brynjar Níelsson, væri þá ekki til einhvers vinnandi að hafa þetta í lagatextanum, taka málið í sátt út úr nefnd, að stjórnarmeirihlutinn sýndi í verki að hann meini eitthvað með áherslum sínum á jafnrétti sem hann ber sér á brjóst fyrir í upphafi ríkisstjórnarsamstarfsins? Væri það ekki bara táknrænt, hv. þm. Brynjar Níelsson, að setja þetta inn í lagatextann? Þá sýna stjórnarflokkarnir að þeir meina eitthvað með því þegar þeir segja í stjórnarsáttmálanum, með leyfi forseta: „Jafnrétti í víðtækri merkingu er órjúfanlegur þáttur í réttlátu og sanngjörnu samfélagi.“

Ef þetta breytir engu eins og hver hv. stjórnarliðinn á fætur öðrum hefur komið upp í ræðustól til að sannfæra okkur hin um að þetta breytir engu — hættið þessu nöldri, hvað er að ykkur? — af hverju er þetta þá ekki bara einfaldlega í lagatextanum?

Um það og þetta mál sagði hv. þm. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og hv. formaður allsherjar- og menntamálanefndar, með leyfi forseta:

„Við ákvörðun ráðherra um skipun dómara leggur meiri hluti nefndarinnar áherslu á að ráðherra hafi að markmiði í því samhengi að kynjahlutföll verði sem jöfnust í hópi skipaðra dómara.“

Ég er mjög einfaldur maður. Það er rosalega margt í þessum heimi sem ég skil ekki. Þetta er eitt af því af því að hv. flutningsmenn meiri hlutans eru í algjörri mótsögn við sjálfa sig. Annars vegar segja þeir að þetta ákvæði skipti engu máli af því að það sé í greinargerðinni og það þurfi ekkert að vera í lögunum. Hins vegar eru þeir tilbúnir að taka málið út í ágreiningi til þess að koma í veg fyrir að ákvæðið sem engu máli skiptir sé í lagatextanum. Þetta er algjörlega ósamrýmanlegt.

Við erum ekki hérna í einhverju tómarúmi. Það vill svo til að þó þetta sé indæll salur og hér sé gott að sitja með góðum vinum og hlusta hvert á annað og ylja sér hér við orðaflauminn hvert úr öðru, þá erum við ekki hér í einhverju tómarúmi. Hv. þingmenn hafa tjáð sig mjög víða um mál tengd þessu. Hæstv. ráðherra hefur tjáð sig. Nokkrir hv. stjórnarþingmenn virðast t.d. hafa allt aðra skoðun á jafnréttismálum og hvort það sé yfir höfuð einhver munur á aðstöðu kynjanna úti í samfélaginu t.d. hvað varðar laun. Auðvitað hefur þetta áhrif á okkur hér inni þegar við erum að afgreiða lög. Hér hefur verið farið nokkuð vel yfir orð hæstv. dómsmálaráðherra í tengslum við þetta. Það er því ekkert skrýtið og það ætti hver sanngjarn þingmaður að skilja það að í þessu andrúmslofti þá vilji kannski einhver einfaldlega hnykkja á því í lagatexta að við skipan dómara í Landsrétt verði farið eftir jafnréttislögum. Hvað er stóri skaðinn við það?

Jafnréttislög hafa verið hér í gildi síðan árið 2008. Er það ekki rétt munað hjá mér, hv. þm. Brynjar Níelsson? (BN: Jú.)(AIJ: Hann grætur daginn.)[Hlátur í þingsal.] Samt ætlum við að láta eins og það hafi bara öllu breytt. Ætlum við að láta eins og hvatning í lagatexta til ráðherra sé ekki í það minnsta táknræn? Kannski er hún lögformleg árétting á því að ráðherra beri að fara eftir jafnréttislögum í þessu.

Ef áréttingin er til staðar í greinargerðinni, hvert er þá vandamálið við það að hún sé til staðar í lagatextanum sjálfum, í máli sem meiri hlutinn ætti að kappkosta að vinna í sátt af því að hér er um að ræða umtalsverða breytingu á hvorki meira né minna en dómskerfinu í landinu? Það er leitt að meiri hlutinn skuli ekki finna sig knúnari en raun ber vitni til að reyna að ná sátt með minni hlutanum um þetta mál, sérstaklega þegar hver hv. stjórnarþingmaðurinn á fætur öðrum kemur og segir að í raun skipti þetta engu máli. Til hvers er þá ágreiningurinn?