146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[14:24]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé segir að það sé táknrænt að setja þetta inn í lögin. (KÓP: Meðal annars.) Það sem engu máli skiptir, er bara táknrænt, á ekkert erindi í lög. Við getum alveg eins alltaf sett jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar inn í öll lög. (KÓP: Er það verra að það sé gert?) Það er auðvitað enginn bragur á því, hv. þingmaður. Málið er auðvitað að þetta skiptir engu máli að því leytinu til að vera að djöflast með þessa breytingu vegna þess að ráðherrann er alltaf bundinn af því að skipa þann hæfasta. Þegar eru tveir jafn hæfir þarf hann að horfa á þessi sjónarmið um hlutföllin. Það er svo einfalt. Það er ekki flókið. En það er eins og það sé einhver innbyggður misskilningur í því hérna með þessa breytingartillögu, sýnist mér í fljótu bragði, að með henni virðist minni hlutinn halda að ráðherrann geti farið fram hjá nefndinni með matinu á hinum hæfasta. Það getur ráðherrann aldrei. Við eigum ekki að vera að setja einhverja táknræna hluti, einhverja óþarfa hluti, inn í lagatexta. (Gripið fram í.)Það er vondur bragur á því.

Breytingin á nefndinni var vegna þess að lögin sem giltu áður gerðu ráð fyrir því að hver tilnefndi einn. Þá virkuðu ekki lögin. (Gripið fram í.) Þá þurfti að laga það. Það var mjög eðlilegt. Það er allt annar hlutur en þetta. Þannig að við skulum hafa þetta bara á hreinu að þetta er greinilega óþarfi, sýnist að hugsunin á bak við þetta sé það að ráðherra geti farið fram hjá mati nefndarinnar, en það er mikill misskilningur (Forseti hringir.) ef menn halda það.