146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[14:26]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni fyrir andsvarið. Ég bið hann um leið afsökunar á því að hafa ekki verið skýrari en ég var, því að það er augljóst á andvari hans að hann hefur ekki skilið mig til fulls, nema hann hafi kosið að velja það úr máli mínu sem honum hentaði. En ég ætla hv. þingmanni það ekki.

Ég nefndi það í ræðu minni að þetta væri meðal annars táknrænt. (Gripið fram í.)Það væri kannski betra ef hv. þingmaður svaraði því hvað honum fyndist að því að þetta væri þarna. Ég get svo sem ekki gert kröfu um að hann geri það, en væri ekki ágætt að setja þetta þarna inn til að ná sátt um hið nýja dómstig?

Við erum löggjafarsamkunda hér. Við setjum lög. Við setjum ekki nefndarálit. Það sem stendur í lögum sýnir skýrt vilja okkar. Í þessu frumvarpi til laga er ráðherra gefið mikið svigrúm. Þar segir, með leyfi forseta, varðandi hæfni umsækjenda:

„Frá þessu má þó víkja ef Alþingi samþykkir tillögu ráðherra um heimild til að skipa í embættið annan nafngreindan umsækjanda sem fullnægir að mati dómnefndar öllum skilyrðum 2. og 3. mgr. 21. gr. laga þessara.“

Aftur. Ég kom hér í pontu ekki til að munnhöggvast, ekki til að reyna að slá einhverjar pólitískar keilur eða reyna að vera sniðugur eða tala um hvað einhverjir þingmenn tali nú mikið, eða hvað það er sem menn gera til að dilla sjálfum sér í þingsal. Ég kom til að reyna að fá skýringu á þessu. (Gripið fram í: Ja, þú ert búinn að fá hana.) Ef þetta er ekkert vandamál, af hverju er þetta þá ekki einfaldlega sett inn í lögin til þess að ná fram sátt um þetta gríðarlega mikilvæga mál?