146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[14:31]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það gæti verið að menn væru að tala hér í kross vegna þess að allir eru sammála um jafnréttislögin, að þau gildi þegar aðilar eru jafn hæfir. Ég hef þó samúð með skoðun minni hlutans og tel, ólíkt hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé, að þetta sé ekki táknrænt heldur sé þetta kannski nauðsynlegt. Það hefur nefnilega alveg heyrst í umræðunni að dómstólalögin séu sérlög sem gangi framar jafnréttislögum. Ég er sammála hv. þm. Brynjari Níelssyni um að ekki eigi að setja öll ákvæði inn í öll sérlög til að hnykkja á öllum sköpuðum hlutum, en þegar menn greinir á um þetta, og þetta hefur ekkert endilega heyrst í neinum bakherbergjum heldur hafa menn talað um þetta upphátt, þá finnst mér svo sem alveg að menn geti notað eitthvað sem heitir þá, ég veit það ekki, nú er ég að veifa einhverjum lögfræðihugtökum — geta menn kallað þetta varúðarreglu?