146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[14:38]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni andsvarið. Ég vona að mér fyrirgefist, sú hugsun verður einhvern veginn alltaf sterkari eftir því sem tíminn líður, maður lítur einhvern veginn á stjórnarflokkinn sem Sjálfstæðisflokkinn og hann verður alltaf fyrirferðarmeiri. En ég hygg þó, ég vona að ég sé ekki að fara með rangt mál, að fyrr í umræðunni hafi í það minnsta þingmaður annars stjórnarflokks tekið undir sjónarmið meirihlutaálitsins og talað gegn sjónarmiði minnihlutaálitsins.

Hvað annað varðar sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kom inn á þá er ég bara alveg sammála því. Að sjálfsögðu vekur það mann til umhugsunar þegar hæstv. dómsmálaráðherra segir hér í ræðustól, með leyfi forseta:

„Ég er ekki talsmaður þess að menn bindi það í lög að velja eigi einstakling eftir kyni fremur en hæfni.“

Að sjálfsögðu hringir þetta ákveðnum varúðarbjöllum. Ég velti fyrir mér, er það ekki siðferðileg skylda Alþingis að binda svo vel um hnútana sem best verður, að tryggja það að farið sé eftir lögum í hvívetna, þar með talið jafnréttislögum? Teljum við að það verði betur gert með því að setja það í lagatextann en að hafa það í nefndarálitinu, þá tel ég einfaldlega að okkur beri skylda til að gera það.