146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[14:47]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að fagna því að við skulum eiga svona djúpa og góða umræðu um jafnréttismál hér í dag. Ég tel það virkilega til fyrirmyndar að við fjöllum um eins mikilvægt mál og jafnréttismál eru eins oft og mögulegt er á Alþingi.

Mig langaði að fara aðeins yfir það og segja með miklu stolti að ég held að þessi ríkisstjórn sé sennilega sú framsæknasta í sögu Íslands í jafnréttismálum. Ég held því statt og stöðugt fram, og stolt. Ég held að í engum stjórnarsáttmála, sem áður hefur verið skrifaður í þessu landi, hafi svo skýrt verið kveðið að orði og raun ber vitni hér:

„Jafnrétti í víðtækri merkingu er órjúfanlegur þáttur í réttlátu og sanngjörnu samfélagi. Þar vegur jafnrétti á vinnumarkaði þungt. Í því skyni að sporna við launamisrétti af völdum kynferðis er áskilið að fyrirtæki með 25 starfsmenn eða fleiri taki upp árlega jafnlaunavottun.“

Þetta er sennilega það framsæknasta sem hefur nokkurn tíma staðið um jafnréttismál í stjórnarsáttmála. Ég er stolt af því að vera partur af ríkisstjórn sem setur jafnrétti svona hátt og skýrt á sinn forgangslista.

Hvað varðar nefndarálitið get ég sagt að mér finnst það ganga nægilega langt fyrir mig, sem er femínisti algerlega fram í fingurgóma, þegar hér stendur skýrum stöfum — það er einmitt fjallað um þessa umræðu:

„Meiri hlutinn bendir á að hlutverk dómnefndar er að láta ráðherra í té rökstudda umsögn um umsækjendur um dómaraembætti og taka afstöðu til þess hvaða umsækjandi sé hæfastur til að hljóta embættið. Hafi dómnefnd metið tvo eða fleiri umsækjendur jafn hæfa getur hins vegar reynt á ákvæði laga um jafna (Forseti hringir.) stöðu og jafnan rétt kvenna og karla … við ákvörðun ráðherra um skipun dómara og leggur meiri hlutinn áherslu á að ráðherra hafi að markmiði í því samhengi að kynjahlutföll verði sem jöfnust í hópi skipaðra dómara.“

Þetta er mjög skýrt.

(Forseti (NicM): Samkvæmt þingsköpum ber þingmanni að leita leyfis forseta áður en hann les upp prentað mál. Forseti vill einnig biðjast afsökunar á að hafa borið nafn hv. þingmanns vitlaust fram.)