146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[14:50]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit svo sem ekki hvert andsvarið raunverulega var en ég fagna því að hv. þingmaður sé afskaplega ánægður með ríkisstjórn sína, mér finnst það alveg frábært. Mér finnst líka frábært að einhvers konar hugleiðingar um jafnréttismál, jafnrétti kynjanna, skuli koma fram í stjórnarsáttmála sem þó var nokkuð ómerkilegur að öðru leyti. Það finnst mér mjög gott. En orðum þurfa að fylgja gjörðir. Það er ekki nóg að segja að hlutirnir eigi að vera frábærir, þeir verða að vera það. Því myndi ég gjarnan vilja að ekki væri ágreiningur um að þessi litla setning fari inn í þessi lög. Þrátt fyrir að nú fyrr í vikunni hafi komið í ljós að ríkisstjórnin hafi gengið út frá því að greinargerð sé jafn gild lögum er það svo í íslenskri stjórnsýslu, eftir því sem ég best veit, að greinargerð er lögskýringargagn sem jú vissulega hefur þann tilgang að skýra lög. En lögskýringargögn eru ekki lög. Það er ekki svo í almannatryggingalögum né í lögum um dómstóla. Lögin sjálf verða að segja hvað má og hvað má ekki og hvernig hlutirnir eigi að vera. Á meðan sú staða er ekki uppi mun það koma fyrir á einhverjum tímapunktum að ráðherrar, eða aðrir sem hafa það hlutverk að framfylgja lögum, munu túlka þau á þann hátt sem þeim hentar. Ég er ekki sannfærður um að þær tryggingar sem eru til staðar í jafnréttislögum séu nægar í þessu tilfelli þar sem, eins og áður hefur verið bent á í þessum ræðustól, um er að ræða sérlög sem hugsanlega ganga framar jafnréttislögum.