146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[14:52]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að biðjast afsökunar á því að hafa ekki beðið um leyfi forseta áður en ég vitnaði í nefndarálitið.

Við erum með jafnréttislög. Við bætum við jafnréttislög beinum tilmælum til ráðherra um að hún hafi þau lög til hliðsjónar. Það er það sem þetta nefndarálit gerir og gerir mjög skýrt, beinir því til ráðherra að hafa lög sérstaklega til hliðsjónar. Það er mjög skýrt. Ég skil ekki af hverju er verið að flækja hlutina. Þetta er mjög skýrt í nefndaráliti meiri hlutans og við erum með jafnréttislög í landinu sem sérstaklega er vísað til í þessum texta.

Við erum öll sammála um markmiðið, það er nú kannski það jákvæða sem kemur fram hér í þingsal í dag. Það er það sem er frábært, að við erum öll sammála um markmiðið, um endamarkið, sem við stefnum sameiginlega að, hvort sem er í meiri hluta eða minni hluta. Við stefnum öll að sama marki, að jafnrétti. Sama hvar í flokki við stöndum. Við erum öll að fara þangað. Það er frábært. Og þetta er mjög skýrt í nefndaráliti meiri hlutans og mætir þeirri kröfu sem hér er verið að tala um. Að vera að flækja hlutina meira, með því að setja inn í lög að það eigi að fylgja lögum, finnst mér persónulega óþarfi þegar þetta kemur eins rosalega skýrt fram í nefndaráliti meiri hlutans og raun ber vitni.