146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[14:54]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála því. Það er ótrúlega gott að allir séu sammála um mikilvægasta atriðið í þessu máli, að tryggja eigi jafnrétti kynjanna og jafnrétti almennt. Um það er enginn að deila. Sem betur fer erum við komin fram yfir þann punkt í umræðunni. En mér heyrist við deila um svolítið annað atriði sem skiptir sennilega jafn miklu máli. Það er hvernig þrískipting valdsins virkar. Hvernig dómstólar virka, hvernig túlkun laga virkar. Þetta er nefnilega þannig að greinargerðir með lögum eru ekki lög. Þær eru ekki lög. Þær eru lögskýringargögn. Það er bara þannig að það á að nota þau til að skilja lögin en þó svo að tilmæli í greinargerð séu rosalega falleg og skýr mun það ekki breyta því að hún er ekki lög.

Greinargerðir eru ekki fyrirmæli sem ríkisvaldinu ber samkvæmt lögum að fara eftir. Ef þetta stendur ekki skýrt í lögum, og það er í raun verið að tala um að dómsmálaráðherra eigi eða geti farið eftir þessu, þá mun hann kannski líka kjósa að gera það ekki. Þetta kemur aftur og aftur upp hérna. Þessi sama umræða um hvort greinargerðir séu lög. Það gerðist í almannatryggingamálinu. Nú höfum við Píratar reyndar lagt fram tillögu vegna kjararáðs vegna þess að þar hunsaði kjararáð ekki bara greinargerðina, það hunsaði lögin sjálf. Það er alveg ótrúlegt að við skulum þurfa að deila um hvort greinargerðir hafi lagalegt gildi. Þær hafa það ekki.