146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[14:58]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að svarið sé einfaldlega nei. Það er ekki hægt að segja að þessi orð rími við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Í rauninni er ekki nauðsynlegt að hafa fleiri orð um það. Hún gerir það bara ekki.

Hitt er annað mál að ég ætla ekki að skipa sjálfan mig dómara í einhverri pissukeppni milli ríkisstjórna. [Hlátur í þingsal.] Það er alger óþarfi. Fjórar setningar hér, sextán setningar þar. Jú, vissulega var það tilfellið að ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar gerði ansi margt afar gott í jafnréttismálum og ætti nýja ríkisstjórnin kannski að leita í þann reynslubanka til þess að halda þeirri vinnu áfram.

En ég held að svoleiðis pissukeppni sé ekki endilega gagnleg á þessu augnabliki. Þetta er eitt af fáum tilfellum sem ég hef orðið vitni að á Alþingi hingað til þar sem fólk er algerlega sammála um markmiðið og þá ættum við ekki að vera með einhver leiðindi til þess að tefja framgang góðra mála. Við erum í rauninni að rífast um hvort setja eigi eina setningu í lögin. Auðvitað á bara að setja þessa setningu í lögin. Hún mun ekki skaða neinn. Ef svo ólíklega vill til að hæstv. dómsmálaráðherra beri raunverulega kynjasjónarmið fyrir brjósti mun það bara vera merkingarlaust og óþarfi. En það er ekki að ófyrirsynju sem fólk fer fram á að við baktryggjum okkur í þessu tiltekna tilviki. Við verðum að gera það.