146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[15:15]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi kannski ekki alveg skilið mig. Það eru líka til sérlög um hvernig dómarar verða skipaðir í þennan nýja Landsrétt. Það eru þessi sérlög sem við erum að ræða akkúrat núna. Í lögum um dómstóla kemur ekkert fram um kynjasjónarmið. Í reglum valnefndarinnar kemur ekkert fram um kynjasjónarmið. Þannig að það hljóta að vera sérlög um hvernig skuli skipað í þessi dómaraembætti. Því skil ég ekki af hverju ekki er hægt að halda því fram og gulltryggja það að þar skuli jafnréttislög einnig halda gildi sínu.

Annars vildi ég koma því að svona í lokin að ég held ekkert persónulega að hv. þingmaður hati konur. Ég held hins vegar að hann átti sig ekki alveg á nauðsyn þess að leiðrétta áratugalangan halla í dómskerfinu. Öfugt við það sem hv. þingmaður heldur þá held ég að það sé þjóðfélagið allt sem hafi hag af því að jafnt kynjahlutfall sé í Landsrétti (Forseti hringir.) en ekki einungis þingmaðurinn sjálfur þótt hann sé giftur kvenkyns lögfræðingi.