146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

orkuskipti.

146. mál
[15:37]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um orkuskipti, samanber þingskjal 205, 146. mál.

Orkuskipti eru okkur Íslendingum vel kunn, þ.e. að skipta einum orkugjafa út fyrir annan. Á síðustu áratugum höfum við náð markverðum árangri með notkun endurnýjanlegra orkugjafa í okkar orkubúskap, jafnt til heimilis- sem iðnaðarnota. Fyrir um 40 árum síðan var helmingur íbúðarhúsa á Íslandi hitaður upp með innfluttu jarðefnaeldsneyti. Í dag er þetta hlutfall innan við 1%. Það er sannarlega dæmi um vel heppnuð orkuskipti með tilheyrandi jákvæðum efnahagslegum, samfélagslegum og umhverfislegum ávinningi. Minni staðbundin mengun, minni losun gróðurhúsalofttegunda, umtalsverður gjaldeyrissparnaður, bætt orkuöryggi á landsvísu og efling hvers konar nýsköpunar á sviði orkumála. Allt þetta hefur leitt af orkuskiptum síðustu áratuga.

Á sjöunda áratug síðustu aldar höfðu margir efasemdir um þau áform um orkuskipti í húshitun sem þá var ýtt úr vör, enda lágu ekki fyrir augljósar fjárhagslegar forsendur fyrir þeirri aðgerð á þeim tíma. Ég efast um að nokkur í dag muni mótmæla því að um gæfurík og mikilvæg spor hafi verið að ræða. Við þekkjum því vel þær jákvæðu afleiðingar sem orkuskipti hafa í för með sér og mikilvægi þess að halda áfram með sögu orkuskipta á Íslandi.

Segja má að við séum í dag komin á næsta stig orkuskipta á Íslandi. Innflutt jarðefnaeldsneyti er enn ríkjandi á ýmsum sviðum. Það eru því víða tækifæri jafnt sem áskoranir sem blasa við okkur. Fyrst og fremst er áframhaldandi verk að vinna á sviði samgangna, hvort sem um er að ræða samgöngur á landi, á hafi eða í flugi. Mikilvæg skref hafa verið stigin undanfarin ár og hafa aðgerðir stjórnvalda leikið stórt hlutverk í þeim orkuskiptum samgangna á landi sem þegar hafa átt sér stað. Góðan árangur má meðal annars sjá á því að endurnýjanlegt eldsneyti hefur vaxið úr 0,2% hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í um 6% á fimm árum. Bæði er hér um að ræða lífeldsneyti sem nú er notað í meira mæli en áður, auk þess sem verulegur vöxtur hefur verið í fjölgun rafbíla sem eru nú fleiri en 1.000 á vegum landsins. Enn er þó langur vegur í að ná fram fullum orkuskiptum í samgöngum á landi. Ég tel að í þeim efnum eigum við að setja okkur bæði metnaðarfull markmið og raunhæf.

Haftengd og flugtengd starfsemi er hins vegar mun skemur á veg komin hvað orkuskipti varðar og er nánast enn á byrjunarreit. Það er því lagt til að útvíkka stefnumótun og aðgerðir fyrir orkuskipti þannig að þau taki til allra sviða sem eru meira og minna háð notkun jarðefnaeldsneytis.

Orkuskipti eru eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar og stór þáttur í aðgerðum okkar í loftslagsmálum. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar kemur fram að gerð verði aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í samræmi við Parísarsamkomulagið. Áætlunin feli m.a. í sér græna hvata, skógrækt, landgræðslu og orkuskipti í samgöngum. Í stefnuyfirlýsingunni kemur einnig fram að koma þurfi á samræmdu kerfi grænna skatta og í því skyni verði áfram unnið að útfærslu skatta á ökutæki og eldsneyti. Meðfylgjandi tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um orkuskipti er lögð fram í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Í sóknaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum sem kynnt var í lok nóvember 2015 eru tvö verkefni tilgreind sem lúta beint að orkuskiptum, annars vegar um endurnýjaða aðgerðaáætlun til næstu ára vegna orkuskipta, jafnt á landi, lofti sem legi, og hins vegar um eflingu innviða fyrir rafbíla á landsvísu. Í sóknaráætluninni kemur nánar tiltekið fram að aðgerðaáætlun til næstu ára vegna orkuskipta, jafnt á landi sem á hafi, verði lögð fram á Alþingi sem tillaga til þingsályktunar á vorþingi 2016 og að áætlunin verði unnin á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og Grænu orkunnar, sem er samstarfsvettvangur um orkuskipti sem miðar að því að auka hlut visthæfra innlendra orkugjafa á kostnað innflutts kolefnaeldsneytis. Í samræmi við þetta var tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um orkuskipti lögð fram af þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra á Alþingi í júní 2016 til kynningar. Mælt var fyrir tillögunni í ágúst 2016 og í kjölfarið gekk tillagan til atvinnuveganefndar Alþingis og til umsagnar en ekki náðist að afgreiða hana fyrir þinglok. Sú tillaga til þingsályktunar sem ég mæli hér fyrir er því endurflutt tillaga sama heitis frá síðasta löggjafarþingi, þingskjal 1405, 802. mál. Taka ber þó fram að í þeirri tillögu til þingsályktunar sem ég mæli fyrir hefur verið tekið tillit til ábendinga frá umsagnaraðilum eins og kostur er. Hefur þingskjalið því tekið nokkrum breytingum og verið uppfært. Helsta efnislega breytingin er sú að á grundvelli nýjustu gagna er lagt til að markmið um hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum á landi árið 2030 verði hækkað frá því sem var í fyrri útgáfu, úr 30% í 40%. Önnur yfirmarkmið í tillögunni eru óbreytt frá því sem kynnt var á 145. löggjafarþingi.

Hæstv. forseti. Í megindráttum snýst sú tillaga til þingsályktunar sem ég hér mæli fyrir um markmiðasetningu og aðgerðaáætlun. Markmiðasetning tekur mið af spá orkuspárnefndar Orkustofnunar og möguleikum stjórnvalda til að beita hagrænum hvötum til orkuskipta. Lagt er til að stefnt verði að 40% hlutdeild endurnýjanlegrar orku í samgöngum á landi árið 2030 og 10% hlutdeild í haftengdri starfsemi. Markmið þessi eru raunhæf en krefjandi. Ljóst er af niðurstöðum spálíkana að þessum árangri verður ekki hægt að ná nema með aðkomu stjórnvalda þar sem spár sem gera ráð fyrir óbreyttu ástandi skila okkur 27% hlutdeild árið 2030 fyrir samgöngur á landi og enn við núllið fyrir haftengda starfsemi.

Í tillögunni er lagðar til aðgerðir á nýjum sviðum orkuskipta sem hingað til hafa ekki verið í forgrunni, þ.e. á hafi og í flugi, auk þess sem áfram eru lagðar til aðgerðir fyrir samgöngur á landi. Aukin áhersla er á uppbyggingu innviða og mikilvægi dreifikerfis raforku sem er ein af forsendum fyrir orkuskiptum, enda hefur það sýnt sig að nauðsynlegir innviðir þurfa að vera til staðar til að mæta aukinni notkun endurnýjanlegra orkugjafa, t.d. í tengslum við aukna rafbílavæðingu og raforkunotkun í höfnum.

Ég vil sérstaklega koma inn á það að ég tel brýnt að gefinn verði meiri gaumur að samhengi orkuskipta og nauðsynlegri uppbyggingu á flutnings- og dreifikerfi raforku. Umræða síðustu ára um uppbyggingarþörf flutnings- og dreifikerfis raforku á það til að snúast um of um stóriðju og möguleg stóriðjuáform. Það er að mínu mati mikil einföldun á staðreyndum. Aukið afhendingaröryggi raforku snýr að stærstum hluta að heimilum og smærri fyrirtækjum, að jöfnun búsetuskilyrða, jöfnun atvinnutækifæra og jöfnun möguleika til orkuskipta á landsvísu. Án fullnægjandi flutnings- og dreifikerfis raforku er þannig tómt mál að tala um áform um orkuskipti á landsvísu. Við verðum því að horfa á þessi mál í samhengi og nálgast þau með ábyrgum hætti til lengri tíma af yfirvegun.

Í þingsályktunartillögunni er lögð fram aðgerðaáætlun um orkuskipti til næstu ára. Gert er ráð fyrir að áætlunin verði endurskoðuð á fimm ára fresti og uppfærð eftir því sem ástæða er til á hverjum tíma. Sjálf aðgerðaáætlunin er í 23 liðum sem eiga að stuðla að því að framangreind markmið náist. Aðgerðirnar flokkast í þrjá meginflokka. Númer eitt eru grænir hvatar, annars vegar innviðir og stefnumótun, svo og reglugerðir og rannsóknir. Aðgerðirnar skiptast síðan á samgöngur á landi, hafi og í lofti. Of langt mál er hér að telja upp allar aðgerðirnar í þingskjalinu.

Í tillögunni er komið inn á að stjórnvöld hafi í lok síðasta árs úthlutað styrkjum til uppbyggingar innviða fyrir rafbíla. 16 verkefni hlutu styrk, samtals að fjárhæð 201 millj. kr., og munu í kjölfarið yfir 100 hleðslustöðvar fyrir rafbíla verða reistar um allt land á næstu þremur árum. Þessir styrkir til innviða senda sterk skilaboð um að hafin sé stórfelld og markviss uppbygging innviða fyrir rafbíla sem mun m.a. auka til muna möguleika á ferðum út fyrir höfuðborgarsvæðið. Í tillögunni er lagt til að starfshópur leggi til almennar aðgerðir sem stuðli að uppbyggingu innviða fyrir vistvænar bifreiðar við heimili og vinnustaði. Þá er lagt til að skoðað verði hvernig hægt sé að auka notkun skipa á raforku í höfnum, bjóða upp á raftengla fyrir langtímastæði við flugvelli og landtengingu flugvéla. Þörf er á því að auka upplýsingagjöf til almennings um bifreiðar, innviði og eldsneyti. Bent er á nauðsyn þess að innviðir verði til staðar fyrir vistvænar bifreiðar á ferðamannastöðum. Þá eru tillögur um samgöngustefnu, vistvæn innkaup og alþjóðlegar mengunarreglur á hafsvæðum.

Eins og áður segir var þessi tillaga til þingsályktunar unnin í samstarfi við Grænu orkuna, samstarfsvettvang um orkuskipti, auk samráðs við fjölda hagsmunaaðila. Græna orkan er samstarfsvettvangur hins opinbera ásamt aðilum úr atvinnulífinu sem tengjast orkuskiptum. Þar eiga sæti fulltrúar fjögurra ráðuneyta, þ.e. atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, umhverfis- og auðlindaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og innanríkisráðuneytis. Fyrir hönd atvinnulífsins eru fulltrúar frá Samtökum iðnaðarins, Landsvirkjun, Bílgreinasambandinu og Mannviti.

Hæstv. forseti. Þingsályktunartillaga þessi felur í sér hvatningu og aðgerðir til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis, flýta fyrir þróun orkuskipta eins og kostur er en einnig að höggva á hnúta ef hindranir eru í vegi með auknu samstarfi og samvinnu þvert á ráðuneyti. Það er von mín að tillögur þær sem lagðar eru fram í þingskjalinu muni stuðla að áframhaldandi öflugu starfi á sviði orkuskipta og styðji þannig þau metnaðarfullu markmið sem stjórnvöld hafa sett sér á þessu sviði, samfélagi og umhverfi til heilla.

Að því sögðu legg ég til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. atvinnuveganefndar.