146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

orkuskipti.

146. mál
[16:35]
Horfa

Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P):

Virðulegi forseti. Skýrsla var unnin í umhverfisráðuneyti Svandísar Svavarsdóttur og birt árið 2009 undir heitinu Möguleikar til að draga úr nettóútstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Í henni segir, með leyfi forseta:

„Til að stuðla að samdrætti í útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá fiskveiðum er takmarkið að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis á aflaeiningu, það er að ná sama magni fisks úr sjó með minni tilkostnaði og minna útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Helstu þættir sem koma til greina til að draga úr útstreymi má flokka í þrjá flokka: eldsneytissparnaður, loftslagsvænni orkugjafar, aukin notkun landrafmagns.“

Því má segja að heldur mikil áhersla sé lögð á loftslagsvænni orkugjafa og aukna notkun landrafmagns í orkuskiptaáætlun. Þó að þessir þættir séu vissulega til staðar eru þeir einungis lítill hundraðshluti af vandamálinu eins og það er sett fram í orkuskiptaáætlun.

Í lið B.5 er talað um að athuga hvort einhverjar hindranir komi í veg fyrir notkun raforku í höfnum. Það er áhugaverð athugasemd, en hægt er að svara þeirri spurningu einfaldlega þannig: En flutningskostnaður raforku í höfnum er með því hæsta sem gerist á Íslandi. Það væri gott skref í átt að þessu markmiði að lækka kostnað á raforku í höfnum.

Í lið C.5 er talað um fulla innleiðingu MARPOL-samningsins er varðar brennslu svartolíu í höfnum. Ég fagna þeim lið gífurlega, enda er þetta gott og gilt mál þegar við höfum í huga fjölgun skemmtiferðaskipa í höfnum Íslands.

Það sem þó vantar í flutning málsins eru haldbærar lausnir í losun koltvísýrings á hafi úti. Talað er um að árið 2030 verði raforkuvélar, þ.e. vélar sem ganga einungis fyrir raforku, 2% af heildarnotkun fiskiskipaflotans í stað jarðefnaeldsneytis.

Í sviðsmynd 3 er dregin upp mynd af því að auka losun gróðurhúsalofttegunda fram undir 2025. Burt séð frá því hvort koltvísýringurinn kemur úr lífdísli er hann samt losun. Ef það á raunverulega að ráðast að rót vandans þurfum við að temja okkur umhverfisvænni sóknarkosti. Einn besti valkosturinn við að fækka tonnafjölda brenndrar olíu miðað við tonnafjölda afla er að beita réttu verkfærunum á réttu miðin. Notkun togveiðarfæra þarf að dragast saman umtalsvert og veita þarf frekari heimildir til veiða í minni einingum. Eldsneytisnotkun við togveiðar er um 300 lítrar á tonn og 450 lítrar við notkun frystitogara. Notkun olíu við handfæraveiðar er til samanburðar hins vegar um 120 lítrar á sótt tonn.

Helstu hönnunarþættir sem hafa áhrif á orkunýtingu fiskiskipa eru t.d. heppilegir mótstöðueiginleikar skips; stærð og hönnun, þá sérstaklega stærð; nýtni og stærð aflvélar, þá sérstaklega stærð aflvélar; góð einangruð vistarvera og nýting á kælivatni og afgasi til upphitunar til framleiðslu á rafmagni.

Togveiðarfæri eru mjög stór stuðull í eldsneytisnotkun togara. Um 75% notkunar eldsneytisins fer fram við að toga. Það orsakast af aukinni mótstöðu þegar trollið er dregið eftir skipinu og af auknu álagi við að yfirvinna mótstöðuna. En eldsneytisnotkun togara við orkuframleiðslu við legu í höfnum er einungis 0,6%. Til samanburðar tek ég olíunotkun við handfæraveiðar, en hún er um 2 lítrar á klukkustund á meðan á veiðiskap stendur. Handfærabáturinn drepur á vélinni, lætur síðan strauma og vind um að færa sig til um veiðisvæðið. Hann færist einungis um nokkur hundruð metra í einu og lætur sig síðan reka aftur, sem þýðir að vélin er kannski notuð í tvær til fimm mínútur á hverri klukkustund við veiðar.

Því sakna ég hvata í orkuskiptaáætlun til þess að fá meira fyrir minna, að minnka brennslu eldsneytis.

Píratar hafa lagt fram frumvarp um auknar strandveiðar og bið ég þingmenn að hafa losun gróðurhúsalofttegunda ofarlega í huga þegar sú umræða fer fram.