146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

orkuskipti.

146. mál
[16:48]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég gat ekki á mér setið að koma hér aftur upp í pontu eftir að hafa hlustað á ræður hv. þingmanna sem töluðu á undan mér. Mig langar að byrja á því að taka undir með hv. þm. Haraldi Benediktssyni þar sem hann fagnaði nýjum tón sem kæmi frá hæstv. ráðherra. Ég verð bara að segja að ég er nokkuð bjartsýnn á að við getum tekið höndum saman um þessi efni.

Hv. þm. Teitur Björn Einarsson spurði hér áðan út í rammaáætlun. Þess vegna langaði mig bara rétt að koma hér upp og koma aðeins inn á þetta efni í ræðu minni. Eins og ég horfi á þetta þá er þetta efni nátengt svo mörgum öðrum plöggum, stefnum og tækjum og tólum sem stjórnvöld hafa og koma inn á borð okkar á Alþingi þegar við horfum til markmiðanna sem liggja að baki. Vissulega eru hér fjárhagslegir hagsmunir undir líka þegar kemur að því að nýta innlent eldsneyti en ekki innflutt. En undirliggjandi eru að sjálfsögðu þau umhverfismál að minnka útblástur og að ganga bara almennt betur um umhverfið.

Þessi áætlun tengist rammaáætlun, hún tengist kerfisáætlun, hún tengist því sem ég væri til í að sjá; áætlun um orkunýtingu, þ.e. ekki öflun heldur í hvað eigi að nýta orkuna, hversu stóran hluta orkunnar viljum við sjá í iðnaði, hversu stóran hluta til heimila, hversu stóran hluta í græna starfsemi og hversu stóran hluta í orkuskipti. Áætlunin tengist samgönguáætlun. Ætlum við að byggja upp? Ég kom inn á borgarlínu í fyrri ræðu minni og hv. þm. Haraldur Benediktsson kom inn á landbúnaðinn. Þetta tengist búvörusamningnum. Þar benti hv. þingmaður réttilega á ýmis tækifæri. Í því samhengi þarf að skoða allt, innlenda framleiðslu á móti innflutningi. Hvað þýðir það í útblæstri að flytja inn æ meira af landbúnaðarafurðum? Að ég tali nú ekki um stefnu í loftslagsmálum sem væntanlega verður rædd hér í kjölfarið á nýútkominni skýrslu um stöðuna í loftslagsmálum.

Ég vildi því nýta tækifærið til að hvetja hæstv. ráðherra, ekki að ég haldi að hún þurfi sérstakrar hvatningar við því að mér heyrist hæstv. ráðherra tala á mjög svipuðum nótum og ég hugsa, til þess að horfa heildstæðar á þessi mál en við höfum gert.

Talað hefur verið um þörfina á sérstöku ráðuneyti ferðamála, ég ætla ekki að draga úr þeirri þörf. Ég velti upp þörfinni á sérstöku ráðuneyti loftslagsmála, loftslagsráðuneyti eða loftslagsskrifstofu. Hún væri þvert á öll ráðuneyti og öll mál sem tengdust þeim markmiðum og því ferli sem þar er, færu í gegnum hana, af því að þetta ætti að sytra út í allt stjórnkerfið og vera alls staðar í ráðuneytum, ef við ætlum að ná raunverulegum árangri, sem mér sýnist á öllu og heyrist og er sannfærður um að við hæstv. ráðherra erum sammála um að sé nauðsynlegt.

Áður en ég stíg úr ræðustól ætla ég að koma aftur inn á það til hvaða nefndar málinu er vísað. Það sýnir okkur einmitt hversu nátengt þetta er allt saman. Í raun og veru ætti þetta mál heima í flestöllum nefndum Alþingis. Ég vona bara að það verði sem mest samvinna í þessum efnum, í það minnsta við umhverfisnefnd.