146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Georgíu.

177. mál
[17:10]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talar hér um mjög mikilvæga hluti sem eru umhverfismálin, sem fara eðli máls samkvæmt þvert á landamæri. Ég er ánægður að heyra að hv. þingmaður er sammála mér um áherslu varðandi fríverslun. Ég held ef við ætlum að ná árangri í umhverfismálum þurfi menn í fyrsta lagi að huga að þeim og setja sér markmið, en ég held að það verði aldrei gert nema við náum árangri í tækniframförum. Í rauninni snýst þetta um að við tökum þann hluta heimsins sem er á þeim stað sem við vorum á fyrir löngu síðan, og koma honum á þann stað sem við erum á núna, en ekki með þeim hætti sem við gerðum það. Þau lönd sem standa sig best þegar kemur að umhverfismálum eru þau sem njóta mestu efnahagslegu velmegunarinnar. Við Íslendingar höfum margt fram að færa hvað það varðar. Það liggur líka fyrir að ef allir nýttu orkuna eins og við (Forseti hringir.) þá væri ekki þessi vandi í heiminum í dag. Þetta snýst um að flytja þekkinguna annað, m.a. til Georgíu.