146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Georgíu.

177. mál
[17:12]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna einlæglega þessum fríverslunarsamningi við Georgíu. Ég hugsa nú að ég sé ein af fáum í þessum þingsal sem farið hafa til Georgíu og var þar um hríð, þannig að ég fagna þessu alveg einstaklega mikið, ef svo má segja.

Það sem mig langar til að fá að vita, kannski meira fyrir forvitnissakir, er hvort utanríkisráðherra muni beita sér með einhverjum hætti fyrir markaðssetningu Íslands í Georgíu og öfugt. Nú veit ég að Georgía er mjög auðugt land og þar er allt í bullandi vexti, ef svo má segja. Kaupmáttur hefur verið að aukast þar í landi og aðstæður breytast mjög hratt m.a. út af Evrópusambandinu og þeim fríverslunarsamningum sem verið er að gera. Ég tel þetta því vera mjög gott skref fyrir Georgíu, en líka fyrir Ísland af því að eins og hæstv. ráðherra minntist á áðan er ekki langt síðan við vorum á svipuðum stað og Georgía. Það er ekki langt síðan heilu þorpin í Georgíu fengu rafmagn til sín. Eftir fall Sovétríkjanna var allt í lamasessi. Þetta land þarf á miklum stuðningi að halda.

Mig langar til að fá að vita hvort utanríkisráðherra er með einhverja áætlanagerð eða hugmyndir um það hvernig við gætum kynnt Ísland betur, og mögulega öfugt, og hvernig hægt væri að fara í gagnkvæma samvinnu þegar kemur að að kynna Georgíu fyrir Íslandi. Ég tel að það væri mjög farsælt.