146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

breyting á lögum um almannatryggingar.

[15:11]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Ég held að það deili enginn um það að um mistök hafi verið að ræða enda voru þessar spurningar kannski leið til þess að velta því upp hversu, afsakið slettuna, „slippery slope“, það getur verið og hversu slæmt fordæmi við erum að setja með því að lög skuli vera sett afturvirkt. Þetta býr til grátt svæði sem getur verið hættulegt upp á fordæmi sem við gefum fyrir framtíðina.

Þá langar mig líka til þess að spyrja um það sem fram kom hér í pontu að Tryggingastofnun vissi í raun og veru af þessum mistökum í janúar en hélt áfram að greiða á skjön við lög. Þá langar mig að spyrja: Er sú ákvörðun að greiða ekki samkvæmt gildandi lögum stjórnvaldsákvörðun? Í ströngum skilningi getur svo verið að stjórnvald taki ákvörðun um rétt eða skyldu. Ef svo er, ætti að vera andmæla- og kæruréttur? Og gagnvart hverjum þá? Það eru ýmsir svona hlutir sem koma upp þegar við tökum ákvörðun að greiða afturvirkt og sérstaklega þegar ríkisstofnanir greiða ekki (Forseti hringir.) samkvæmt lögum heldur greiða samkvæmt anda eða vilja löggjafans fremur en lögunum sjálfum.

(Forseti (UBK): Forseti vill minna hv. þingmann á að þingmálið er íslensk tunga.)