146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

breyting á lögum um almannatryggingar.

[15:13]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Enn og aftur, þarna hefur verið farið með málið á öllum stigum þess frá því þessi mistök komu í ljós með ásetningi löggjafans sem var algjörlega skýr á sínum tíma. Á því leikur ekki nokkur vafi að mínu viti. Tryggingastofnun lætur hins vegar ráðuneytið vita þegar þau mistök koma upp sem mönnun voru ekki ljós. Það er strax sett í meðferð hjá þinginu að greiða úr og leiðrétta.

Ég held að þetta sé ekki, eins og hv. þingmaður segir, einhver hættuleg brekka niður á við hvað varðar mistök í þessu. Ég held að rétt sé að hafa í huga að löggjöfin staðfesti í raun og veru ásetning sinn með afgreiðslu fjárlaga þar sem er alveg ljóst með (Forseti hringir.) fjárveitingu til þessa fjárlagaliðar að það var hugsað með þeim skerðingum sem þar var ætlað, ella hefði þurft u.þ.b. 30 milljarða (Forseti hringir.) til viðbótar til fjárlagaliðarins í ár. Ef við myndum ekki bregðast við með þessum hætti þá þyrftum við einfaldlega (Forseti hringir.) að skerða bætur á móti til þess að mæta þeim kostnaði sem ekki eru fjárheimildir fyrir í fjárlögum ársins 2017.