146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

samgöngumál í Reykjavík.

[15:22]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Íbúar höfuðborgarsvæðisins eru nú um 64% landsmanna, þar fyrir utan ferðast bróðurparturinn af þeim 1,7 milljónum ferðamanna sem hingað koma til landsins um svæðið. Það er því afar brýnt að umferðarmál svæðisins séu í góðri samvinnu við sveitarstjórnir þess. Í sérstökum umræðum í síðustu viku fullyrti hæstv. samgönguráðherra að Reykjavíkurborg hefði ekki samþykkt mislæg gatnamót á mótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar þrátt fyrir að slíkt væri í samþykktri samgönguáætlun, áætlun sem ríkisstjórn virðist reyndar ekki hafa hugsað sér að fullfjármagna.

Tillögu um mislæg gatnamót á vegamótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar var hafnað af borgarráði árið 2006 þegar Sjálfstæðisflokkur var í meiri hluta, m.a. með vísan til þess að flytja þyrfti vestari kvísl Elliðaánna úr farvegi sínum vegna framkvæmdarinnar og einnig að þeim hafi verið harðlega mótmælt af íbúasamtökum hverfisins. Í framhaldi voru gerðar tillögur um úrbætur á gatnamótunum. Síðan þá hafa ekki borist erindi um gatnamótin frá Vegagerðinni til Reykjavíkurborgar. Verkefnið er ekki á samgönguáætlun Alþingis fyrir 2015–2018 sem samþykkt var af Alþingi 2016. Það er heldur ekki inni í samgönguáætlun samgöngumála 2011–2022 sem samþykkt var af Alþingi árið 2012. Það er hins vegar gert ráð fyrir 1 milljarði í verkefnið undir lok samgönguáætlunar 2015–2026, en hún hefur ekki verið samþykkt af Alþingi. Það verður því ekki séð að ráðherra fari með rétt mál. Verkefnið er ekki í samþykktri samgönguáætlun.

Spurningarnar eru því sáraeinfaldar:

1. Stendur ráðherra enn við orð sín frá því í síðustu viku?

2. Ef ekki, finnst ráðherra þá við hæfi að koma hingað upp og leiðrétta orð sín?

Í þriðja lagi langar mig að vita hver samskipti ráðherra við borgarstjórn Reykjavíkur hafa verið um þessi mál eftir að hann tók við.