146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

breytingar á námslánakerfinu.

[15:34]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki tekið neinar ákvarðanir um það enn þá með hvaða hætti ég hyggst haga vinnunni við það að yfirfara og endurskoða og vinna frumvarp um lánasjóðinn í nýjan búning. En ég hef kappkostað um þau mál sem ég hef verið að vinna að að reyna að búa til sem mesta samstöðu um þau, bæði faglega og pólitískt. Ég hef ekki trú á að ég fari að breyta út frá því verklagi mínu þannig að ég reikna með því að reyna að ná einhvern veginn tengingu við stjórnmálaflokkana hér á þingi jafnt sem hagsmunaaðila. Í hvaða búningi það verður er ég bara ekki í stakk búinn til að lýsa hér og nú því að ég er einfaldlega að vinna í öðrum málum og er ekki kominn mjög djúpt inn í lánasjóðinn enn þá. Ég skal upplýsa það þegar það liggur fyrir. Þá geri ég ráð fyrir að sumum þingmönnum hér í þessum sal verði betur skemmt.